Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Knöpp frásögn um flókna tilveru nútímakvenna

Mynd: - / Blekfjelagið

Knöpp frásögn um flókna tilveru nútímakvenna

28.06.2021 - 09:30

Höfundar

Önnu Stínu Gunnarsdóttur tekst að byggja upp samlíðan með söguhetjum í frumraun sinni, skáldsögu um flókna tilveru nútímakvenna, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi. Sagan sé hins vegar svo stutt að ekki gefst pláss til að rugla lesendur í ríminu til að magna upp spennu og ófyrirsjáanleika.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Vorið virðist vera tími ungra höfunda nú um stundir og þessi bók er hluti af því flóði, þótt flóð sé kannski aðeins of sterkt til orða tekið. En ef til vill verður vorbókaflóðið eitthvað til að hlakka til á næstum árum, ekkert síður en jólabókaflóðið. Sagan sem sögð er hér er unnin upp úr lokaverkefni ritlistarnemans Önnu Stínu Gunnarsdóttur og ber þess vissulega einhver merki að vera frumraun höfundar. En margar frumraunir hafa þó samt verið brokkgengari en þessi sögulega nóvella eins og hún heitir í undirtitli, stuttri skáldsögu sem nýtir sér tækni sögulegra frásagna. Sögulegar skáldsögur eru oft taldar eiga rót að rekja til Walters Scotts sem sló í gegn með þeim á nítjándu öld, eftir að hann gaf út Waverley árið 1814, sögu sem hann kláraði reyndar eftir að hafa þýtt hluta úr Eyrbyggja sögu á latínu. Undirtitill þeirrar sögu var reyndar „'Tis Sixty Years Since“ og byggði það á hugmynd um að 60 árum eftir að atburðir eru liðnir og þar með úr minni lifandi fólks, en samt ekki horfnir inn gráa forneskju gleymskunnar með öllu, þá sé kominn tími til að móta úr því sögulega skáldsögu.

Þessi saga gerist í nútímanum og beinir augum lesenda mjög að þeim hlutum sem mikið eru á döfinni þessa daga og ár; kynvitund og kynhneigð. Inn í frásögnina fléttast síðan dagbókin sem titillinn vísar til sem lýsir atburðum í lífi ömmusystur sögukonunnar, Málfríðar Evu, á stríðsárunum. Hér er einmitt notað gamalt bragð úr sögulegum skrifum, sögukonan finnur handrit eða bréf, í þessu tilfelli dagbók, sem við lesum glefsur úr og fáum þannig svipmynd af lífi ungrar konu fyrir um áttatíu árum. Stundum hefur sá eða sú sem finnur gömlu gögnin áhrif á framsetningu þeirra, okkur finnst jafnvel að viðkomandi ráðskist eitthvað með það sem fannst. Í þessari sögu er hins vegar ekki um neina slíka leiki að ræða, glefsurnar úr dagbókinni eru birtar stafréttar og meira að segja er notað annað letur til að greina þær frá meginfrásögninni, eins og textinn sé handskrifaður; virkar þetta býsna vel og lesandinn fer fyrirhafnarlaust á milli tímasviða í sögunni.

Þetta er stutt saga svo ekki gefst mikið ráðrúm til að móta persónurnar, en meginþunginn er á söguhetjunni og ömmusysturinni sem skrifaði dagbókina. Dóttir sögukonunnar kemur einnig við sögu í síðari hluta sögunnar og bætir hún við snúningi þegar á líður. Þetta veldur því að aðrar persónur fá töluverða skemmri skírn, en þó verður að segja að með því að vísa til tiltekinna erkitýpa þá verður lesendum fljótt ljóst fyrir hvað þær standa. Móðir söguhetjunnar kemur kannski síst út að þessu leyti, við vitum að hún er alkóhólisti en fátt annað, sama má segja um fyrrverandi eiginmann hennar, þó þannig að við vitum að hann á tiltekinni krísu vegna dóttur þeirra og leitar þess vegna aftur á náðir flöskunnar þegar hér er komið sögu í hans lífi.

Konurnar Gréta og Dagbjört fá dálítið meira pláss og við höfum skýrari mynd af þeim og þær gegna vel afmörkuðum hlutverkum í sögunni, sem við reyndar fáum dálítið fljótt veður af, eins og reyndar öðru. Þarna kemur aftur inn í að sagan er svo stutt að höfundur hefur ekki pláss til rugla okkur lesendur í ríminu með frásagnatöfum og öðrum villuljósum skáldskaparins til að byggja upp spennu og ófyrirsjáanleika. Enn frekar á þetta við um dagbókarglefsurnar, sem auðvitað lúta ekki sömu lögmálum og skáldskapurinn, þar er frásögnin ber og atburðirnir og fólkið í henni er dregið upp með einföldum og skýrum hætti. Eva Carwell, breska hjúkrunarkonan, eins og sagt var á þeim tíma, er aðeins til í draumsýn fyrstu ástar og aðrar persónur mótast af hlutverkum eða sorglegum viðburði í lífi þeirra við missi barns í fæðingu.

Þetta allt er þó haganlega saman sett og sýnir að höfundur hefur burði til að setja saman trúverðugan og sannfærandi skáldskap; lógík frásagnarinnar gengur alveg upp, þótt velta megi fyrir sér endinum, þar sem allt virðist vera á bestu leið. En kannski er ekkert athugavert við það eins og heimspekingurinn Ernst Bloch hélt fram í rannsókn sinni Das Prinzip Hoffnung, eða Grundvallarregla vonarinnar, þar sem hann fór yfir hvernig skáldskapur hefur um aldir gegnt því hlutverki að skapa útópíu vonarinnar og veita mannfólkinu einhvern tilgang í samræmi við það sem það sjálft er hverju sinni. Þess vegna segja ævintýri gjarna frá því hvers vegna kolbíturinn eignast að lokum prinsessuna og hálft ríkið að auki og þar fram eftir götunum. Og þó að harmleikir falli ekki undir þessar grunnreglu vonarinnar þá vitum við að mikið af bókmenntum, leikritum og kvikmyndum fylgir þessu mynstri; að skapa fyrir okkur hugmynd um betri tíma í vændum, að minnsta kosti hjá sögupersónunum.

Stíll sögunnar markast af fremur stuttum aðalsetningum íslenska skólans, sem ég nefni stundum svo í kerskni, en of margir punktar geta komið í veg fyrir að hægt sé að róa á djúpið, finnst mér, en vitanlega er það ekkert lögmál. Í þessari sögu tekst til að mynda alveg að fá okkur til að hugsa um flókna tilveru nútímakvenna og höfundi tekst líka að byggja upp samlíðan með helstu söguhetjunum, Málfríði Evu, dóttur hennar Maríu og ömmusysturinni Erlu og samanburðurinn á lífi þeirra þá og nú virkar vel í samhengi sögunnar.

Þessi nóvella og nokkrar aðrar nýútkomnar frumraunir í ár og á síðustu árum benda sannarlega til þess að vorlaukar séu að spretta upp og kannski verður seinna talað um bókmenntavor í því samhengi. Formlegt háskólanám í ritlist á vafalaust átt stóran þátt í því með því að gróðursetja marga þessara vorlauka og mögulega sýnt fram á að skáldið sé skapað þótt það fæðist með tiltekna hæfileika, svo vísað sé til frægra orða sem Ben Jonson hafði uppi í eftirmælum sínum um Shakespeare: „For a good poet's made, as well as born;“. Vonandi verður framhald á þessari sköpun skálda sem hafa eitthvað að segja, eins og höfundur þessarar sögu hefur greinilega. Það er að minnsta kostin vonin sem ég hef áþreifanlega eftir lestur þessarar bókar og annarra frumrauna undanfarin ár.