Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Heybaggar verða að girðingarstaurum

Gæðaplast beint frá bónda verður að girðingarstaurum eftir að hafa farið í gegnum endurvinnslu Pure North Recycling í Hveragerði. Bændur í fjórum sveitarfélögum skila nú plasti utan af heyböggum til fyrirtækisins og fleiri sveitarfélög hafa sýnt því áhuga. Framkvæmdastjóri segir að stefnan sé að loka hringrásinni.

Nýverið voru samþykkt lög sem eiga að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis, en í því felst meðal annars að sveitarfélögum er nú skylt að safna fleiri tegundum úrgangs. Sigurður Halldórsson, framkvæmdastjóri Pure North, segir að með þeim skapist nýjar forsendur fyrir endurvinnslu.

„Við höfum nú skrifað undir samninga við nokkur sveitarfélög sem eru að stíga nýtt skref hér á landi, að bera ábyrgð á sínum úrgangi sjálf.“

Þessi sveitarfélög eru Skaftárhreppur og sveitarfélögin þrjú sem standa að Sorpsamlagi Strandasýslu sem eru Kaldrananeshreppur, Árneshreppur og Strandabyggð. Og bændurnir safna plastinu í svokallaða bamba, sem eru grindur utan af stórum tönkum sem hingað til hafa talist til rusls. Nú er verið að kanna samstarf við flutningafyrirtæki um að koma plastinu til Hveragerðis.

„Þarna erum við að fá gæðaplast beint frá bónda og við vitum að það er mikill áhugi hjá öðrum sveitarfélögum að stíga sambærileg skref,“ segir Sigurður.

Fram að þessu hefur notað heyrúlluplast verið sent úr landi. Og það er ekkert smáræði sem til fellur á hverju ári. „Þetta eru um það bil 2.000 tonn á ári sem eru að falla til hér á landi. Og þetta er gæðaplast en það skiptir máli að umgengni sé tryggð alveg frá bónda og til okkar þannig að við náum að framleiða hágæða plast sem má nota aftur í framleiðslu,“ segir Sigurður.

Og hvað verður svo um plastið hjá ykkur? „Við erum að vinna í þróunarverkefni um að framleiða svona endavöru. Þar munum við loka hringrásinni með bændunum og erum að stefna að því að framleiða til dæmis girðingarstaura fyrir bændur.“

Þannig að heyrúlluplastið gæti endað aftur á sama bænum í öðru formi? „Já, vonandi. Það er markmiðið okkar. Að loka hringrásinni.“