Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Eftirtektarverð frumraun um sjúka ást

Mynd með færslu
 Mynd: Sólveig Johnsen - Blekfélagið

Eftirtektarverð frumraun um sjúka ást

27.06.2021 - 11:00

Höfundar

Sólveig Johnsen spinnur hugvitssamlega frásögn í sinni fyrstu skáldsögu um brenglað samband, sem bendir líka á að ofbeldi og misnotkun eru ekki alltaf líkamleg, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Ástin er líkast til sterkasta tilfinning sem við manneskjurnar upplifum og henni fylgir mikil sæla. En ástin getur orðið að þráhyggju og þegar svo er getur sjálf þeirra sem heltekin eru orðið undir, orðið að kjörlendi stjórnsams fólks, að ekki sé talað um fólk sem er yfirgangssamt eða ofbeldishneigt. Sagan sem hér er undir hefur þetta að þema og segir í fyrstu persónu söguna hennar Sögu, ungrar samkynhneigðrar konu á þrítugsaldri sem verður yfir sig ástfangin af Dalíu, heillandi konu, en hún er samt sem áður ekki öll þar sem hún er séð. Samtímis er frásögnin nokkuð raunsætt innlit í skemmtanalíf ungs fólks á þessum aldri í Reykjavík. Reyndar dansar söguhetjan á barmi hengiflugsins vegna erfiðleikanna, sem hún gengur í gegnum, og hefur reyndar gengið í gegnum áður.

Fyrst og fremst er þetta samt rannsókn á því hvernig fólk misnotar tilfinningar annarra, tilfinningar hinna „ástsjúku“ ef svo má að orði komast. Reyndar rakst ég fyrir tilviljun á vef með spurningakönnun um „sjúka ást“ á netinu og var það athyglisvert eftir lestur þessarar sögu, sem mun vera fyrsta bók höfundar. Söguhetjan fellur fyrir heillandi konu á fastabarnum sínum og við fáum greinargóða lýsingu á því hvernig samband þeirra þróast, með nokkrum endurlitum til hennar fyrstu ástar og einnig svipmyndum af vinum og kunningum Sögu og sambýlisfólki. Það er mikið djammað og dálítið dópað í frásögninni og er það alveg trúverðugt, raunar athyglisvert hvernig það er eiginlega sjálfsagt, þótt sumar persónur geri sér alveg grein fyrir hættunni af því og aðrar hafa hreinlega gefið það upp á bátinn, eins og vinkona Sögu, Halla, sem fer til að mynda einu sinni á AA fund af tónleikum um miðnætti. En það eru engar móralskar predikanir, þessu er einfaldlega lýst eins og það gerist.

Formið á frásögninni virðist í upphafi vera einfalt, en það er svolítið eins og ástarviðfangið, Dalía, ekki allt sem það er séð og kemur það fram smám saman. Tekst höfundi vel að halda utan um þá umbreytingu sem persónurnar ganga í gegnum og beita frásagnartöf til að breikka myndina af þeim, og sérstaklega Sögu sjálfri, sem við fáum að kynnast inn að beini, allar hennar tilfinningar og hugsanir eru opinberar. En þar sem hún segir söguna túlkar hún einnig hugsanir annarra út frá gerðum þeirra og við lesendur sjáum allt frá hennar sjónarhorni. Ég geri líka ráð fyrir því að flest okkar hafi samlíðan með henni Sögu, við skiljum viðbrögð hennar vel, þótt við myndum kannski ekki bregðast við hlutunum eins og hún, til allrar hamingju verð ég að segja, því hún fórnar sér á raun á altari ástarinnar á annarri manneskju.

Annað eftirtektarvert og frumlegt atriði í forminu eru handritaðar lýsingar inn á milli, hrikalegar, súrrealískar lýsingar og beinlínis uggvekjandi. Þetta má lesa að hluta til sem óra, en það eru veruleikatengsl sem opna fyrir lesandanum undir lokin hvað er á ferðinni. Yfirgangurinn og ofbeldið á bak við blíðu í byrjun afhjúpast og við sjáum hvernig stjórnsami aðilinn læðir sér inn í sálina á Sögu, stúlku sem vill bara elska og vera elskuð, en lendir í því að vera í raun misnotuð. Samt sem áður er myndin af hinni stjórnsömu Dalíu langt frá því að vera eins og af einhverjum grimmdarsegg, þetta er fáguð kona sem beitir eingöngu andlegu ofbeldi, og hefur raunar alltaf trúverðugar skýringar á atferði sínu. Hún svarar til að mynda ekki síma dögum saman og lætur svo Sögu vita að móðir hennar hafi verið fárveik, og vekur þannig mikla sektarkennd hjá henni. Þessi samskipti eru býsna vel uppbyggð og gefur vonir um að hér sé flinkur höfundur að vaxa úr grasi.

Við fáum einnig nokkuð góða sálfræðilega skýringu á því hvernig viðkvæmni Sögu fyrir ástinni verður til. Í fyrsta lagi með uppgötvun samkynhneigðar sinnar á unglingsárum, hún veit ekki í fyrstu hvernig hún á að taka á því, skilja þessar tilfinningar sem einnig beinast að hennar bestu vinkonu á þeim tíma. Ofan í kaupið er þar harmur sem einnig er afhjúpaður hægt og bítandi í frásögninni, þetta er gömul og góð aðferð að flysja laukinn lag fyrir lag uns við komumst að því að hann hefur engan kjarna, heldur einungis öll lögin sem liggja hvert utan á öðru. Þar eru lögin sem tengjast Dalíu, en einnig góðri vinkonu Sögu, áðurnefndri Höllu, sem styður hana í einu og öllu, og er að vissu marki rödd skynseminnar í frásögninni, en á einum stað má spyrja hvort hún vilji ekki líka stjórna Sögu. Lesendur verða gera það upp við sig.

Þessi frásögn kemur út á tíma þegar upp er risin önnur „me-too“ bylgja og snýr helst að ofbeldi og yfirgangi karlmanna gagnvart konum, en þessi saga fjallar um slík brengluð samskipti milli samkynhneigðra kvenna, þótt ofbeldið sé ekki líkamlegt, að manni sýnist. Það eru svo sem engar fréttir, en þarna er spunnin hugvitssamleg frásögn af þessu, sem bendir líka á að ofbeldi og misnotkun eru ekki alltaf líkamleg, en geta haft gríðarleg áhrif á einstaklinginn sem fyrir verður. Titillinn, Merki, vísar einnig til þess, það má sjá í samskiptunum merki um óæskilega hluti í framkomu annarra, sem ástfangið fólk horfir kannski framhjá. Besta dæmið um það er kannski ávarp Dalíu; hún kallar Sögu „álfkonu“ sem vel gæti verið hlýlegt, jafnvel ástúðlegt; en er það kannski bara niðrandi þegar nánar er að gáð? Það eru þessi óljósu mörk sem sagan hefur undir smásjánni og tekst vel að byggja upp hægt og hægt uns „drekinn“, eins og það heitir í sögunni, kemur í ljós.

Það er erfitt að fjalla um svo viðkvæm málefni svo vel sé, það er hægt að detta niður í of mikið drama, yfirspila áföllin og annað í þá veruna. En með höfuðpersónunni, sem að vissu leyti er svona klassísk meðalmanneskja, kannski af því sjálfsálit hennar beið hnekki á einhverjum tímapunkti, þá hefur tekist að birta mynd af geðþekkri konu sem verður fyrir því að hitta sína Dorian Gray, og ekki nóg með það, heldur fær hún að sjá málverkið af henni á endanum. Það er ekki fögur mynd frekar en í sögu Oscars Wildes, en það er okkur lesendum kannski hollt á okkar síðustu og verstu tímum að sjá hana líka. Þrátt fyrir það skulum við aldrei gefa ástina upp á bátinn, hún er ekki alltaf svona, til allrar hamingju!