Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Dramatískar lokamínútur í leikjum kvöldsins

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Dramatískar lokamínútur í leikjum kvöldsins

27.06.2021 - 21:24
Dramatíkin var allsráðandi í leikjum kvöldsins í efstu deild karla í fótbolta. Breiðablik sigraði nágranna sína í HK eftir að hafa verið undir þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Á sama tíma jafnaði Fylkir gegn Val á lokamínútu leiksins.

Í Kópavogi var boðið upp á nágrannaslag af bestu gerð þegar HK tók á móti grönnum sínum í Breiðabliki í Kórnum. Leikurinn var afar skemmtilegur og í raun ótrúlegt að staðan var ennþá 0-0 eftir 20. mínútna leik. En aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Arnþór Ari Atlason fyrsta mark leiksins þegar hann kom HK yfir með góðu skoti. Á lokamínútu fyrri hálfleiks jafnaði Kristinn Steindórsson fyrir Breiðablik, hann skoraði þá með góðum skalla eftir hornspyrnu. 

Seinni hálfleikur byrjaði rólega en á 71. mínútu fékk HK víti. Dómurinn þótti umdeildur og Blikar mótmæltu af krafti. Það breytti engu um að Birnir Snær Ingason fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Sex mínútum fyrir leikslok var aftur dæmt víti en nú á HK. Thomas Mikkelsen fór á punktinn fyrir Breiðablik og jafnaði. Blikar voru þó ekki hættir og aðeins þremur mínútum eftir að hafa jafnað leikinn hamraði Andri Rafn Yeoman boltann í netið og tryggði gestunum stigin þrjú. 

Á Hlíðarenda tók topplið Vals á móti Fylki. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Haukur Páll Sigurðsson heimamönnum yfir þegar hann stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu á 55. mínútu. Allt stefndi í sigur Vals en á 89. mínútu barst boltinn inn fyrir vörnina á Arnór Borg Guðjohnsen sem skoraði snyrtilegt mark og jafnaði leikinn. Lokatölur voru því 1-1.

Valur er enn á toppi deildarinnar með 24 stig og Breiðablik er nú komið í annað sætið með 19 stig.