Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bresk leyniskjöl fundust í strætóskýli

27.06.2021 - 11:56
epa09302772 A handout picture made available of Georgian Interior Ministry shows British destroyer HMS Defender arriving at the Batumi sea port in Georgia, 26 June 2021. The Russian Ministry of Defense on 23 June 2021 announced it Russian bombers had dropped four bombs in front of the British destroyer as warning shots when it crossed into Russian waters in the Black Sea.  EPA-EFE/GEORGIAN INTEROR MINISTRY HANDOUT MANDATORY CREDIT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Breski tundurspillirinn HMS Defender. Mynd: EPA-EFE - GEORGIAN INTEROR MINISTRY
Bresk yfirvöld rannsaka hvernig á því standi að skjöl um varnarmál, sem algjör leynd á að ríkja um, hafi fundist í strætóskýli á Suður-Englandi. Í skjölunum er fjallað um skipulag siglingar tundurspillis við Krímskaga í síðustu viku en málið olli deilum milli Rússa og Breta. 

Skjölin samanstanda af fimmtíu blaðsíðum og fundust í strætóskýli í Kent á Suður-Englandi á þriðjudag. Fyrst var greint frá málinu í Breska ríkisútvarpinu, BBC, í morgun.

Fjallað um möguleg viðbrögð Rússa við siglingu

Í skjölunum er fjallað um möguleg viðbrögð rússneskra stjórnvalda við því ef áhöfn breska tundurspillisins Defender myndi sigla um hafsvæði á Svartahafi, sem samkvæmt alþjóðalögum tilheyrir Úkraínu, og er suður af Krímskaga sem Rússar innlimuðu árið 2014. Sem kunnugt er þá skutu Rússar viðvörunarskotum að tundurspillinum í varúðarskyni á miðvikudag og kölluðu fulltrúa breska sendiráðsins í Moskvu á sinn fund vegna málsins.

Bretar létu sem þeir hefðu ekki orðið varir við viðbrögð Rússa, enda hafi tundurspillinum verið siglt um úkraínskt hafsvæði. Skjölin þykja aftur á móti sýna að ætlunin hafi verið að ögra Rússum. Þá segir einnig í skjölunum að talið hafi verið að með því sigla leiðina gætu bresk stjórnvöld sýnt þeim úkraínsku stuðning. 

Tilkynnt um týnd skjöl í síðustu viku

Bresk yfirvöld reyna nú að komast að því hvernig í ósköpunum skjölin enduðu í strætóskýli, fyrir allra augum. Starfsmaður breska varnarmálaráðuneytisins tilkynnti í síðustu viku að skjölin hefðu týnst og þá var rannsókn hrundið af stað.

Upplýsingar svo viðkvæmar að BBC birtir þær ekki

Einnig voru í strætóskýlinu skjöl þar sem fjallað er um mögulega viðveru breska hersins í Afganistan eftir að Atlantshafsbandalagið dregur heri síðan þaðan. Á vef breska ríkisútvarpsins segir að í skjölunum um Afganistan séu það viðkvæmar upplýsingar sem varðað gætu öryggi Breta í Afganistan, að þær verði ekki birtar í fréttum.