Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

100 ár síðan Reykvíkingar fengu rafmagn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Eitt hundrað ár eru í dag síðan Rafstöðin við Elliðaár var tekin í notkun og Reykvíkingar fengu rafmagn. Þessa var minnst við gömlu rafstöðina í morgun og verður hún opin almenningi í dag. 

Þann 27. júní 1921 vígðu Kristján X. (tíundi) Danakonungur og Alexandrína drottning rafstöð Reykvíkinga í Elliðaárdal. Rafstöðin gamla sem ekki sinnir því hlutverki lengur var opnuð almenningi í hádeginu og fyrir hádegi var tímamótanna minnst: 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir rafvæðinguna hafa verið risaskref í því að þróa bæ í borg:

„Við getum þakkað fyrir framsýni þeirra sem að þessu stóðu. En líka kannski fyrir það að hagkvæmasta leiðin til að virkja var ekki valin. Það var nefnilega á teikniborðinu leið sem var að veita vatninu öllu í Rauðavatn, þaðan í Grafarvog og vera með töluverða virkjun þar. Og þá hefðu ekki verið neinar ár í Elliðaárdalnum og engir laxar.“

Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir að nú eigi að gefa rafstöðinni nýtt hlutverk:

„Hún er búin að sinna sínu. Það var slökkt á henni árið 2014 þegar hún bilaði. Núna fær hún endurvakið  hlutverk sem fræðslumiðstöð og sýning. Og ég tel sjálfur að Elliðaárdalurinn sé vagga Orkuveitu Reykjavíkur. Það er svo margt sem má rekja hingað. Vatnsveitan byrjaði hérna, rafmagnið byrjaði hér 1921, hitaveitan líka. Það eru nokkrar borholur hér í dalnum sem ennþá eru í nýtingu.“ 

Borgarstjóri vill að Elliðaárdalurinn skipi mikilvægan sess:

„Ég sé fyrir mér að Elliðaárdalurinn, við eigum að líta á hann eins og þjóðgarð í borg og standa vörð um hann um aldir alda þannig að maður sé nú hátíðlegur á 100 ára afmælinu.“

Rafstöðin var opnuð gestum og gangandi í hádeginu og klukan tvö verður ævintýraganga og leiksýning fyrir börn.