Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tuttugu hjónavígslur í dag í Grafarvogskirkju

26.06.2021 - 19:16
Mynd: RÚV - Kristinn Gauti Gunnarsson / RÚV
Brúðarmarsinn hljómaði hvorki meira né minna en tuttugu sinnum í Grafarvogskirkju í dag þar sem fram fóru jafnmargar hjónavígslur. 

Þau Hafdís Helgadóttir og Ragnar Ingi Guðmundsson, búsett í Hveragerði, mættu á glæsilegum fornbíl í stíl við tilefnið hálftíma fyrir athöfn en höfðu hægt um sig í kirkjunni því þar var verið að gefa saman par að austan. Prúðbúnir gestir þeirra gerðu slíkt hið sama þar til kom að þeim. 

Prestarnir fjórir í Grafarvogskirkju auglýstu nefnilega fyrir fjórum vikum það sem þau kalla drop in brúðkaup. Það mætti nefna færibandabrúðkaup. Viðbrögðin létu ekki á sér standa; 20 samtals. 

Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur í Grafarvogskirkju gaf sjálf fimm pör saman í dag:

„Við erum að það í fyrsta lagi til þess að vekja athygli á því að það er bara gott að vera gift ef fólk ætlar á annað borð að vera saman, lagalega, og það er öruggara. Og að sýna það að það er hægt að koma í kirkju án þess að það sé eitthvað tilstand.“

Hvernig fólk er þetta sem er hérna í dag?

„Þetta er, ég myndi segja, bara allar tegundir af fólki. Hér kemur fólk í gallabuxum og ekki með neinn með sér eða í brúðarkjól með fullt af fólki. Ja, eða öfugt, í gallabuxum með fullt af fólki eða brúðarkjól og engan með sér. Hér er ungt fólk og hér hefur verið eldra fólk sem hefur verið saman í 30 ár.“

Þau Ragnar Ingi Guðmundsson brúðgumi og Hafdís Helgadóttir brúður ætla ekki að halda stóra veislu heldur skála heima í kvöld. Þau segja að þau hafi viljað gifta sig því þau séu komin með barn og hús. Þau byrjuðu saman í byrjun ársins 2016: 

Þannig að þetta er búið að vera ást frá þeim tíma?

Já, það var aldrei snúið til baka hjá mér alla vegana,“ sagði Ragnar Ingi hamingjusamur að lokinni athöfn í dag.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Dóttir brúðhjónanna kát á kirkjubekknum.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Guðrún Karls Helgudóttir.