Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sussað á sársaukaöskur tilfinninganna

Mynd: - / Benedikt

Sussað á sársaukaöskur tilfinninganna

26.06.2021 - 11:00

Höfundar

Halla Þórlaug Óskarsdóttir lætur hugarstreymi ljóðmælanda vinna áfram, í margar áttir, í bókinni Þagnarbindindi, en tengir allt saman þannig að lesendur skynja og finna lífið í textanum, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi. „Það er ekkert verið að skafa af neinu, við fáum að sjá beint inn í kvikuna.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

Þögnin er til margra hluta nytsamleg, góðra og vondra. Við þegjum stundum til að ná stjórn á hugsunum okkar, stundum af skömm, stundum til að bæla niður tilfinningar, stundum til að njóta augnabliks sem annars færi til spillis. Margar þessara þagna eru í þessari ljóðsögu, sem heitir eftir leik barna sem leikinn er eða var til að sjá hver hefur mesta stjórn á sér, býst ég við. Þessi prósaljóð rjúfa hins vegar þögnina, innri þögnina, til að komast yfir sársauka, sýnist mér, sársauka vegna móðirmissis og sambandsslita, fyrst og fremst, en einnig annarra augnablika sem ljóðmælandi endurskoðar í minningum sínum af mikilli einlægni, með eftirsjá og sjálfsgagnrýni.

Í upphafi fáum við lesendur forsmekkinn að sögunni sem sögð er í þessum ljóðum þar sem ljóðmælandi segir okkur að hér séu „kaflar um mæður og það eru kaflar um dætur. Kaflar um konur og kaflar um þig. Á milli þessara kafla eru kaflaskil og þar er kannski mesti sársaukinn“ (9). Sú kona sem ávörpuð er í annarri persónu hefur eitt aðalhlutverkið í verkinu, það kemur strax í ljós í framhaldinu þar sem lýst er nokkurs konar síðbúinni skilnaðarstund sem klippt er með frásögn af hversdagslífi elskenda og sambýlinga; lýst með þeirri þversögn að ljóðmælandinn segist ekki vera að hugsa um það sem hún er einmitt að hugsa. Það er þráhyggja ástarinnar sem þar ræður ríkjum, ákvörðun andspænis tilfinningum.

Við tekur frásögn af móðurmissi og fæðingu, lífsatburðir, sem eins og ljóðmælandinn segir, „marka bæði upphaf og endi“ og í báðum tilfellum er sussað á sársaukaöskur tilfinninganna: „Í fyrra skiptið upplifði ég varnarleysi, hjálparleysi og örvæntingu, ég öskraði á hjálp. Í seinna skiptið fannst mér ég hafa sigrað heiminn, öskrið kom úr iðrunum“ (16). Við fáum að kynnast sorginni vegna móðurmissisins og minningum um móðurina, bæðin einlægt og íronískt, eins og þegar hún segir frá frönskudagbókinni þar sem hún sagði frá veikindum móður sinnar í fyrsta sinn. Eftir klapp á kollinn frá kennaranum fyrir „vönduð vinnubrögð [...] skrifaði ég stutta sögu um sundferð og ísbíltúr“ (22). Hugleiðing um ástina og dauðann fylgir í kjölfarið, dramatíska sektarkennd ungrar stúlku yfir hugsanlegum dauða fyrstu ástarinnar og dæmisögu um forvörð og plast sem endar á athyglisverðum snúningi. Kafli eitt af þremur alls endar síðan með vangaveltum um tímann, upphaf ástarsambands og nýfætt barnið.

Þessi örfáu dæmi sýna vel breiddina í þessum hárfína prósa, hvernig höfundur lætur hugarstreymi ljóðmælanda vinna áfram, í margar áttir, en tengir allt saman þannig að lesendur skynja og finna lífið í þessum texta, það er ekkert verið að skafa af neinu, við fáum að sjá beint inn í kvikuna.

Sama má segja um annan kaflann, en hann er þó meiri frásögn, saga af ferðalagi elskendanna inn í tímaleysi eins sumars, unaðslegs og ömurlegs fyrir þær báðar. Með myndríkum lýsingum af staðnum og samskiptum þeirra fáum við innsýn í hvernig trosnar upp úr sambandinu og „[k]æfandi þykk[a] þögnin[a] sem umlykur þungar hugsanir“ (42). Við förum yfir ósætti, uppgjör, breyskleika hinnar manneskjunnar og loks sambandsslitin sjálf. Þessu öllu, sem við flest sem reynt höfum eitthvað ámóta þekkjum vel, er komið til skila í knöppum og vel völdum og skiljanlegum orðum. Ég gæti ímyndað mér að þau séu mörg sem gætu lesið þessi ljóð sér til hugfróar, ekki síst ef þau hafa verið í þagnarbindindi um sína líðan. Kaflanum lýkur á vangaveltum um ástvini og dauðann, óumflýjanleiki hans gerir skilin svo skörp og einföld á vissan hátt, „einstaklingurinn skín[...] skyndilega í gegn, skír og fagur“ og ljóðmælandinn spyr að lokum: „Hvers vegna er þá svona erfitt að sleppa takinu meðan hann er enn á lífi?“ (60).

Þriðji kaflinn tekur svo upp þessa þræði og blandar saman við barnsminningar um móðurina, fæðingarþunglyndi, þversagnir tilverunnar í lífi annars fólks, sem eru kannski engar þversagnir, aðeins líf eftir öðrum brautum en normið, en lykilsetningin er: „Ég var hrekklaus“. Við erum alltaf vitur eftir á þegar lífið hefur komið með sínar góðu eða grályndu uppákomur, það þarf einhvern veginn að skilja það, höldum við eða vonum. En er það alltaf hægt, er alltaf hægt að hemja tilfinningar sínar? Annað segir saga af um konu sem missir stjórn á sér í „flugatviki“ eins og það heitir í skýrslum og er leidd var afsíðis af lögreglumönnum eftir lendingu „en okkur hinum, sem hlýðin höfðum þagað og beðið örlaga okkar var boðið upp á hlaðborð í Saga Lounge“ (81).

Ein af lykilfrásögnunum er síðan af því þegar þær mæðgur, ljóðmælandinn og móðirin veika, fara einar saman til útlanda og unga stúlkan upplifir rof í sambandi þeirra vegna smámuna, að okkur þætti flestum, en sýnir vel hvernig veruleikaskynjun barnsins er önnur en okkar fullorðinna. Þetta litla atriði opnar hyldýpi sársauka í minningunni, „[s]ársauka sem aldrei var orðaður“ (83). Þessari snaggarlegu reisu um margar af stærstu tilfinningum sem við upplifum sem einstaklingar lýkur síðan með uppgjöri við fortíðina, ekki einungis fortíðina sem við höfum fengið að upplifa með ljóðmælanda, heldur fortíðina sem fyrirbæri, hvernig við þurfum að sleppa takinu af því sem liðið er, ekki með því að þegja heldur tjá sig.

Það er vafalaust eitt erindi þessarar bókar, að rjúfa þögnina um innibyrgðar tilfinningar ljóðmælanda, þess vegna höfundar, sem lýst hefur þessu verki sem „þerapískum“ skrifum. Hún hefur sannarlega vogað miklu með að opna svo hreinskilnislega á þær, en tekst það ljómandi vel með skáldlegum tökum; mörkin milli hins einkalega og almenna eru rofin, við getum vel séð okkur og margar aðrar manneskjur í þessari sem hefur hér upp raust sína og þegar það gerist vitum við að bókmenntirnar hafa fært okkur nýtt sjónarhorn á lífið og tilveruna.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sársaukinn breytist líkt og minningar

Bókmenntir

Halla Þórlaug hlýtur verðlaun fyrir Þagnarbindindi