Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Johnson & Johnson borgar 230 milljónir dollara í sekt

26.06.2021 - 17:17
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Bandaríska lyfjafyrirtækinu Johnson & Johnson hefur verið verið gert að greiða New York-ríki 230 milljónir dollara í sekt fyrir að hafa ýtt undir opíóíðafaraldur í ríkinu.

Sektin, sem jafngildir 28 og hálfum milljarði íslenskra króna, er hluti af sátt sem náðist í dag milli New York og lyfjafyrirtækisins en samkvæmt henni ber fyrirtækinu einnig að hætta öllum viðskiptum með ópíóíða í Bandaríkjunum.

Ríkissaksóknari New York sagði í dag að ópíóíðafaraldurinn, sem hófst undir lok síðustu aldar, hefði valdið ómælanlegum hörmungum í öllu landinu og að milljónir manna hefðu aldrei beðið þess bætur. Lyfjafyrirtæki á borð við Johnson & Johnson hefðu haft augljósa aðkomu að faraldrinum með því að hvetja lækna til að ávísa of stórum skömmtum af lyfjum sem þessum, sem upphaflega voru hugsuð fyrir krabbameinsveikt fólk. Fjöldi fólks hefur leiðst út í notkun á sífellt sterkari ópíóíðum á borð við heróín og fentaníl. Hálf milljón Bandaríkjamanna hefur látist af völdum ofneyslu lyfja á síðustu tuttugu árum. 

Fleiri ríki hafa farið í skaðabótamál við Johnson & Johnson í tengslum við ópíóíðafaraldurinn og nú standa meðal annars yfir málaferli í Kaliforníu-ríki. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV