Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Biðja gosstöðvafara að hafa augun hjá sér

26.06.2021 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Hundruð björgunarsveitarmanna leita bandarísks ferðamanns við eldgosið á Reykjanesskaga en hann varð viðskila við eiginkonu sína í gær. Björgunarsveitir hafa ekki fundið nein merki um manninn en um 206 björgunarsveitarmenn hafa komið að leitinni. Þetta segir Steinar Þór Kristinsson, sem er í svæðisstjórn björgunarsveitarinnar Þorbjörns.

„Sporhundar hafa rakið slóðir en ekki fundið neitt. Þetta er umfangsmikil leit, við vorum rúmlega hundrað að leita í nótt og núna fer fjölgandi,“ segir hann.

Aðstæður til leitar hafa lagast mikið: „Til að byrja með var mjög lítið skyggni og rigning. Það er ennþá þó nokkur rigning.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir svæðið en þyrluflugmenn segja erfitt að rýna svæðið: „Já, það er erfitt sérstaklega að leita að mönnum sem gætu verið liggjandi, það er betra að leita að mönnum sem eru standandi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnhildur Thorlacius - RÚV

Steinar segir að maðurinn sem leitað er að hafi verið ágætlega búinn og vanur stuttum göngum. Björgunarsveitin biður fólk sem er á ferli við gosstöðvarnar að hafa augun hjá sér og láta vita ef það verður vart við eitthvað. „Maðurinn er dökkklæddur, í dökkri úlpu og gráum buxum með gráa húfu, með myndavél. Hann er um sextugt. Ef fólk er á þvælingi á svæðinu og sér eitthvað, þá viljum við að það láti okkur vita.“