Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ástandið á manninum merkilega gott – Kominn á spítala

26.06.2021 - 20:24
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Maðurinn sem leitað var að við gosstöðvarnar þangað til í kvöld fannst vestan við Núpshlíðarháls, um það bil fjórum kílómetrum frá þeim stað þar sem hann varð viðskila við eiginkonu sína síðdegis í gær. Ástandið á honum var merkilega gott, að sögn Gunnars Schram, yfirlögregluþjóns á Suðurnesjum: „Hann var með lítilsháttar áverka á höfði, annars var hann býsna góður.“ Maðurinn er kominn á Landspítalann og konan hans á leið þangað til hans.

Fréttastofa greindi frá því fyrr í kvöld að maðurinn hefði fundist heill á húfi. 

„Það sem leiddi okkur að leið á þessu svæði var að það höfðu fundist för í mosa og þá beindum við þangað gangandi björgunarsveitarmönnum. Þeir gengu fram á hann þarna. Það lék enginn vafi á því hver var þar á ferð,“ segir hann. 

Í framhaldi var ákeðið að maðurinn yrði færður á Landspítalann og hann er kominn þangað. „Hann var dálítið utan við sig, svo það þótti rétt að koma honum undir læknishendur,“ segir Gunnar.

Leitarsveitir hafi ekki verið búnar að gefa upp vonina, „en hún var aðeins að fjara út,“ segir hann. „Veðrið slæmt og hann ekki sérstaklega vel búinn. Þetta er virkilega ánægjulegt,“ bætir hann við. 

Kona mannsins hefur dvalið á hóteli í Grindavík á meðan á leitinni hefur staðið en er nú á leið á spítalann að hitta hann. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV