Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vitskert veröld

Lög síns tíma er önnur plata Hipsumhaps og nú stýrir Fannar Ingi Friðþjófsson fleyinu einn.
 Mynd: Anna Maggý - Hipsumhaps

Vitskert veröld

25.06.2021 - 10:17

Höfundar

Það er heilmargt með miklum ágætum á plötunni Lög síns tíma með Hipsumhaps, á meðan annað gengur ekki eins vel upp, segir Arnar Eggert Thoroddsen gagnrýnandi.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Lög síns tíma er önnur plata Hipsumhaps og nú stýrir Fannar Ingi Friðþjófsson fleyinu einn, sem söngvari, laga- og textasmiður hljómsveitarinnar og fær svo til sín mannskap sem sinnir einu og öðru. Á Best gleymdu leyndarmálin, sem kom út fyrir tveimur árum, skipuðu hann og Jökull Breki Arnarson hins vegar sveitina. Platan nýja er að mestu unnin með Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni sem útsetti líka ásamt Fannari. Aðrir hljóðfæraleikarar sem koma við sögu eru Guðmundur Óskar, Bergur Einar, Reynir Snær, Alexander Örn, Arnar Ingi, Bergur Þórisson, Ólafur Alexander og Jökull Breki.

Best gleymdu leyndarmálin inniheldur „Lífið sem mig langar í“, lag sem sló í gegn sökum einlægs texta og hressandi hispursleysis. Sú plata innihélt í raun réttu óskammfeilið alíslenskt popp og oft skemmtilegir textarnir héldu eyrunum sperrtum. Sú plata var líka giska fjölbreytileg stíllega en þessi er jafnari að því leytinu til og um leið heilsteyptari. Dökkleitari líka og það er angurvær strengur sem liggur í gegnum hana.

Kosturinn við Hipsumhaps og þessa plötu hér er að það er ekki létt verk að festa hana nákvæmlega niður. Þetta er einhvers konar nútímapopp sem vísar bæði í raddleiðréttingartakta og svefnherbergisupptökustíl samtímatónlistar en horfir líka um öxl, sérstaklega textalega. Fannar yrkir um hversdagsleg vandamál og pælir um leið í tilgangi þessa alls. Er ástfanginn, óviss, leiður og allt þar á milli. Oft sniðug textabrot og laundjúp og minnir hann þar á Spilverksmenn og Mannakorn.

Sjá til að mynda slagarann „Á hjánum“ sem er vel af hendi leystur hljóðfæralega og söngurinn í senn einlægur og ástríðufullur. „Hrokkagikkur“ er vel rokkað og býr yfir undurfurðulegum hljómaskiptingum (2.14 t.d.) sem heldur manni á tánnum. „Þjást“ er ágætis „átótjún“-ballaða og slík lög henta þessari hálfgerðu talsöngsrödd Fannars vel. Lagið er kalt og krómað og gengur upp. Eins er með „Martröð“ sem lútir meira og minna þessu harmræna heildarhljómfalli sem ég minntist á áðan. Enn er þessi leið svo stikuð á „Lag síns tíma“ en nú er aðeins bætt í epíkina sem gerir lagið, lyftir því smekklega upp. Fannar er flottur í játningunum, segist vera kominn á góðan stað en veit um leið að það er ekkert „lokasvar“. „LYFV (líttu yfir farinn veg)“ lokar plötunni, snyrtileg varðeldasmíð sem er leidd af kassagítar og lágtóna söngrödd. En undir lokin er svo allt keyrt upp í botn og Fannar sannfærir okkur um að „allt saman verður allt í lagi.“

Það er því heilmargt hérna með miklum ágætum en annað gengur ekki eins vel upp. Það sem ég vil helst setja út á eru sjálfar lagasmíðarnar sem eiga það til að vera dálítið flatar. Sjá til dæmis opnunarstemmuna „2021“ („Vitskert veröld maður ... heimurinn er ferkantaður“). Vissulega hálfgert inngangsstef sem gerir ekki ráð fyrir miklum krúsidúllum en samt. Eins er með „Meikaða“. Belle and Sebastian svífa yfir vötnum en lagið er bæði tilbreytingarlítið og eintóna. Fleiri svona smíðar eru á stangli. „Vertu til“ er snoturt en tilþrifalítið og hið Tilbury-lega „Bleikja“, þrátt fyrir að skarta svölum, víruðum gítar, er í þessum sama flata stíl. Þessu tengt má Fannar líka alveg við því að setja aðeins meira púður í röddina. Það má alveg færa rök fyrir því að þessi talsöngur henti kvæðaskapnum vel en ég hvet hann engu síður til að prófa að vera aðeins brjálaðri, blanda smávegis krafti út í súpuna. Þegar við á. Stundum virkar þessi stíll hans vel, sérstaklega í rólegri lögunum, en stundum ekki.  

Ferskleiki Fannars og styrkur liggur fyrst og fremst í textunum sem eru bæði skemmtilegir og innihaldsríkir. Tónlistin samfara þessu er hins vegar brokkgengari eins og ég hef lýst. En, og höfum það alveg á hreinu, myndarlegt skapalón er til staðar og Fannar hefur sýnt og sannað að hann getur vel gert flotta hluti þó að ýmislegt gangi ekki upp á þessari tilteknu plötu. Haltu því ótrauður áfram drengur, þetta er bara spurning um smávegis stillingarvinnu.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Hipsumhaps - Lög síns tíma

Tónlist

„Tók ást móður minnar sem sjálfgefnum hlut“

Tónlist

Nýtt myndband úr væntanlegri mynd frá Hipsumhaps