Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Varnargarður til að tefja lokun Suðurstrandarvegar

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þriggja til fimm metra hár varnargarður verður gerður í dalsmynni Nátthaga til að freista þess að seinka því að hraun flæði frá eldgosinu niður á Suðurstrandarveg og yfir Ísólfsskála. Í fréttatilkynningu almannavarna kemur fram að miðað við virknina í gosinu núna nái hraun að öllum líkindum niður á veg á næstu vikum.

Syðst við Geldingadali er nú kominn leiðigarður og lauk framkvæmdum við hann í gær. Honum er ætlað að beina hraunflæði úr Geldingadölum frá Nátthagakrika og niður í Nátthaga. Með þessu á að verja mikilvæga innviði til vesturs frá Nátthagakrika. Leiðigarðurinn er um 5 metra hár og 200 metra langur.

Varðandi varnargarðinn í Nátthaga er búist við að hann nái að seinka bæði hraunrennsli yfir á Suðurstrandarveg, þannig að hann lokist ekki strax, og seinka hraunrennsli yfir ljósleiðara. „Að óbreyttu mun hraunrennslið á endanum fara yfir garðinn og fela ummerki hans á leið sinni til sjávar,“ segir í tilkynningunni. 
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Vefmyndavél RÚV - RÚV