Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

List að velja rétta list

Mynd: Menningin / RÚV

List að velja rétta list

25.06.2021 - 15:31

Höfundar

Nýtt sýningarrými opnar á Grandanum um helgina með verkum eftir rúmlega 30 listamenn. Að baki rýminu stendur myndlistarráðgjöfin Listval.

Rýmið er til húsa við Hólmaslóð 6 og mun hýsa starfsemi Listvals og eins gegna hlutverki sýningarýnis. Að Listvali standa Elísabet Alma Svendsen listfræðingur og Helga Björg Kjerúlf hönnuður. „Listval er myndlistarráðgjöf fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem ég stofnaði fyrir tveimur árum síðan. Við höfum aðstoðað fólk við val á myndlist og höfum undanfarið farið meira inn í fyrirtæki, hjálpað þeim val á verkum, upphengi og slíkt. Það er í rauninni grunnurinn að starfseminni,“ segir Elísabet. 

Persónuleg ráðgjöf

Að sögn Helgu Bjargar verður boðið upp á faglega ráðgjöf við val á verkum og hægt að sækja innblástur í þá myndlist sem til sýnis er. „Hér er að opna sýningarými þar sem listunnendur geta komið og skoðað fjölbreytta myndlist og fengið persónulega ráðgjöf ef þess er óskað og fjárfest í myndlist. Hérna verða til sýnis verk eftir fjölbreytta myndlistarmenn, þverskurðinn má segja, af myndlistarmönnum.“

Nýtt konsept

Listval var stofnað árið 2019 og hefur unnið markvisst að því að auka aðgengi að list og brúa bil milli listamanna og listunnenda. „Við höfum alveg frá upprennandi listamönnum upp í ráðsettari, erum í samstarfi við listamenn sem eru með vinnustofur úti um allan bæ og galleríin. Við sendum sem sagt fólk í galleríin líka, þannig að þetta er svolítið nýtt konsept,“ segir Elísabet. 

Útilistaverk á vegg

Listakonan Sigga Björg Sigurðardóttir sérgerir verk á gafl Lisvalshúsnæðisins. Þetta er partur af seríu sem heitir Stanslaus titringur. Annar partur af þeirri seríu er núna til sýnis uppi í Gerðubergi þannig að ég er að vinna að myndum úr þeirri seríu,“ segir hún. 

Sýningarýmið opnar á laugardag. Nánari upplýsingar má finna hér og hér. Instagramsíðu Listvals má finna hér.

 

Tengdar fréttir

Myndlist

Listin að hengja upp listaverk

Pistlar

Safn án veggja   

Myndlist

Ófatlað fólk sér hlutina stundum skakkt