Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Íslendingar geti glaðst verulega

Mynd: RÚV / RÚV
Dagurinn í dag er mikill gleðidagur að mati Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra. Hún segir Íslendinga geta glaðst verulega yfir því að takmörkunum hafi algjörlega verið aflétt.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að öllum sóttvarnartakmörkunum verði aflétt frá og með miðnætti í kvöld.

Áslaug segir undanfarna mánuði hafa verið þunga og nú megi gleðjast. „Það eru margir mánuðir síðan við vorum hér að tilkynna um fyrstu takmarkanirnar. Það var náttúrulega afar þungt og var mikið inngrip í líf fólks. Þess vegna er þetta mikill gleðidagur. Allir hafa verið að færa miklar fórnir og við getum glaðst því verulega að vera fyrst þjóða í kringum okkur, sem hafa verið með takmarkanir, til að aflétta þeim algjörlega,“ sagði dómsmálaráðherra.

Afléttingar innanlands taka gildi á miðnætti en á landamærunum um mánaðarmótin. Frá og með 1. júlí þurfa bólusettir og þeir sem hafa fengið covid-sýkingu ekki að fara í skimun við komuna til landsins. Nú mun duga að framvísa vottorði.

„Við höfum séð að þau dreifa ekki veirunni eða eru að smita og þessi vörn er að virka. Við höfum séð að þessum hópi hefur fjölgað jafnt og þétt og eru orðin 80 prósent af þeim hópi sem kemur hingað,“ sagði Áslaug. Hópurinn haldi uppi fyrirtækjum og störfum fólks og segist Áslaug vonast til þess að viðspyrnan skili sér hratt til baka. 

Andri Magnús Eysteinsson