Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Höfnuðu tillögu Merkels og Macrons um fundi með Pútín

epaselect epa09298716 Austrian Chancellor Sebastian Kurz (L) and German Chancellor Angela Merkel (R) at the start of a European Union leaders meeting in Brussels, Belgium, 24 June 2021. EU leaders meet in Brussels for two days to discuss COVID-19, economic recovery, migration and external relations.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Leiðtogaráð Evrópusambandsins hafnaði í gærkvöld óvæntri tillögu Angelu Merkel, Þýskalandskanslara, og Emmanuels Macron, forseta Frakklands, um að taka aftur upp beina fundi leiðtoganna með Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Leiðtogar Póllands og Eystrasaltsríkjanna fóru fyrir andstöðunni við tillöguna og sögðu slíka eftirgjöf senda röng skilaboð til Evrópubúa og umheimsins.

Þau Merkel og Macron settu tillöguna fram þegar langt var liðið á fund leiðtoganna í Brussel í gærkvöld. Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hitti Pútín að máli hinn 16. þessa mánaðar og sagði Macron tímabært að leiðtogar Evrópusambandsríkjanna gerðu slíkt hið sama.

Þeir hættu að halda fundi með Pútín eftir að Rússar innlimuðu Krímskagann árið 2014 og Vesturlönd brugðust við með viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum af ýmsum toga. Macron sagðist fullviss um að fundarhöld með Pútín myndu þjóna hagsmunum Evrópusambandsins, sem gæti ekki lengur látið sér nægja að bregðast bara við aðgerðum Rússa.

Merkel greindi fréttamönnum svo frá því í nótt að samkomulag hefði ekki náðst um málið, eftir yfirgripsmiklar og allt annað en auðveldar viðræður.

Eins og að fá björn til að gæta hunangs

Að fundi loknum sagði Gitanas Nauseda, forseti Litáens, að það hefði verið „sameiginleg afstaða margra leiðtoga" sambandsins að breyta ekki stefnu þess gagnvart Rússum. Fyrr um kvöldið líkti hann hugmyndinni við að „reyna að fá björn til að passa upp á hunangskrukku."

Úr varð að í stað þess að skipta um kúrs og hefja beinar viðræður við Rússlandsforseta samþykktu leiðtogarnir að kalla eftir því að framkvæmdastjórn sambandsins og forseti hennar, Josep Borrell, legðu fram tillögur að enn frekari refsiaðgerðum gegn Rússum.