Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm fjörug afsprengi djöfulsins sem gleðja

Mynd með færslu
 Mynd: Solar Power - https://www.lorde.co.nz/

Fimm fjörug afsprengi djöfulsins sem gleðja

25.06.2021 - 12:30

Höfundar

Rassinn á Lorde hefur verið milli tannana á fólki undanfarna daga enda langt síðan að hún hefur sent frá sér lag. En rassgatið hún Lorde er ekki það eina i fimmunni því þar eru líka ný lög frá söngvaskáldunum José González og Aldous Harding og fönkí stemmur frá Joy Crookes og rapparanum ArrDee.

Lorde - Solarpower

Solar Power er fyrsta lagið af væntanlegri þriðju plötu Lorde og hefur lagið og bossinn á Lorde heldur betur slegið í gegn og sprengt bæði internetið og flesta tísku- og tónlistarmiðla. Í laginu sýnir Lorde, sem hefur ekki sent frá sér tónlist í nokkur ár, að það er bara ein Lorde og hún er bara slök á ströndinni með rassinn út í loftið þótt þúsund wannabees séu að reyna stela þrumunni.


José González - Head On

Það er viss léttir að sænski Argentínumaðurinn José González hafi sleppt því að gera ábreiðu af Jesus & Mary Chain-laginu Head On því það hefði getað skapað leiðindi. Í staðinn kemur hann með sitt eigið Head On-lag sem er lágstemmt, frískandi og mjög gott... þótt það sé kannski ekki alveg jafn gott og lag skosku Reid-bræðranna.


Aldous Harding - Old Peel

Nýsjálenski prakkarinn Aldous Harding hefur sent frá sér sitt fyrsta lag í meira en tvö ár sem heitir Old Peel. Í laginu heldur hún áfram samstarfi sínu við upptökustjórann John Parish, sem vann með henni plötur hennar Designer og Party sem þykja báðar framúrskarandi, en John er líklega þekktastur fyrir samstarf sitt við PJ Harvey.


Joy Crookes - Feet Don't Fail Me Now

Tónlistarkonan Joy Crookes frá London er ein af þeim sem BBC hefur gaukað að fólki að kíkja eftir sé það í leit að ferskri tónlist. Nú virðast þeir ætla verða sannspáir því lagið Feet Don't Fail Me Now virðist vera að hitta í mark, hjá tónlistarkonunni sem nefnir Nick Cave og Kendrick Lamarr sem áhrifavalda.


ArrDee - Oliver Twist

Það þekkja flestir söguna um Oliver Twist og frekjuna í honum þegar hann heimtar endalausan mat af velgjörðamönnum sínum, en það er einmitt inntakið í nýju lagi ArrDee. Rappinn ungi sem kemur frá Brighton tengir við óknyttastrákinn Oliver auk þess að vitna í sjálfshjálparbiblíuna The Secret eftir Rhondu Byrne og það hefur komið honum hátt á vinsældarlista í Bretlandi.


Fimman á Spotify