Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Biden hittir Ghani og Abdullah í Hvíta húsinu í dag

Mynd með færslu
 Mynd: pixnio
Þeir Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og Ashraf Ghani, forseti Afganistans, halda fund í Hvíta húsinu í dag til að ræða stöðu mála í Afganistan og framtíðarhorfur. Með á fundinum verður Abdullah Abdullah, leiðtogi afgönsku stjórnarandstöðunnar á þingi og formaður sáttanefndar afganskra stjórnvalda. Sú nefnd hefur það hlutverk að semja um frið við talibana og aðrar herskáar fylkingar eftir að herlið Bandaríkjanna og Nató yfirgefur landið í haust, 20 árum eftir innrás Bandaríkjahers í Afganistan.

Þungar áhyggjur af framhaldinu

Talibanar hafa fært sig æ meira upp á skaftið í aðdraganda brottflutnings erlendra herja og stjórnvöld í Kabúl hafa þungar áhyggjur af framhaldinu. Gert er ráð fyrir að Biden reyni að fullvissa Ghani um áframhaldandi stuðning Bandaríkjanna við stjórn hans og þrýsti á þá Abdullah að snúa bökum saman í baráttunni við talibana.

Búasat má við að þeir Ghani og Abdullah freisti þess að knýja fram meira en almennt orðaðar stuðningsyfirlýsingar, svo sem um afdráttarlaus og vel skilgreind fyrirheit um fjárhagslegan og pólitískan stuðning, þar á meðal um áframhaldandi beina aðstoð við afganska herinn í formi hergagna og tækniráðgjafar.

Hyggjast flytja þúsundir Afgana til Bandaríkjanna

Þá greindi Biden frá því í gær að á fundinum hygðist hann ræða áætlanir um að flytja þúsundir Afgana, sem veitt hafa bandaríska hernum beina aðstoð, úr landi og til Bandaríkjanna. „Þau sem hjálpuðu okkur verða ekki yfirgefin," sagði forsetinn. „Þau verða boðin velkomin [til Bandaríkjanna] rétt eins og allir aðrir sem hætta lífi sínu til að hjálpa okkur."