Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonar að eiginhagsmunir Benedikts blindi honum ekki sýn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, kallar eftir því í ítarlegri stöðufærslu á Facebook að Benedikt Jóhannesson lýsi yfir fullum stuðningi við flokkinn fyrir komandi kosningar til alþingis. Ellegar óttist hann að Benedikt láti eigin hagsmuni blinda sér sýn.

Benedikt sagði sig sem kunnugt er úr framkvæmdastjórn Viðreisnar á dögunum í kjölfar þess að uppstillingarnefnd flokksins kaus að stilla honum ekki upp í oddvitasæti. Í kjölfarið sagði Ingólfur Hjörleifsson sæti sínu lausu á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður þar eð honum þótti Benedikt hlunnfarinn af uppstillingarnefnd.

„Það hefur hryggt mig meira en orð fá lýst að Benedikt Jóhannesson, sem ég hef talið góðan félaga og vin, hafi valið þá leið að gera forystu og stofnanir flokksins tortryggilegar í kjölfar þess að hann fékk ekki vilja sínum framgengt við uppstillingar á lista,“ segir Jón Steindór í færslunni.

Jón Steindór rekur hvernig hann og Benedikt hafi verið samferðamenn um stofnun Viðreisnar á sínum tíma og flokkurinn hafi vaxið og dafnað kringum þá hugsjón „að hugsjónir og stefna flokksins séu stærri en hagsmunir einstaklinga.“ Því segir Jón vera hjartanlega sammála og kallar eftir því að Benedikt leggi sitt af mörkum fyrir málstað Viðreisnar í aðdraganda kosninganna í haust.

„Geri hann það ekki er ég hræddur um að eigin hagsmunir hans blindi honum sýn og hann sjái ekki lengur þá almannahagsmuni sem við ætluðum saman að setja ofar sérhagsmunum,“ skrifar Jón Steindór í niðurlagi stöðufærslunnar.