Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ungverskur krókur á móti kínversku bragði

24.06.2021 - 07:31
Mynd með færslu
 Mynd: By Visions of Domino - Wikipedia
Borgarstjórinn í Búdapest er allt annað en sáttur við áform um kínverskan háskóla í borginni og sendir kínverjum langt nef með því að endurskíra göturnar í næsta nágrenni við fyrirhugaða byggingu.

 

Umdeild áform um háskólabyggingu

Ungverska ríkisstjórnin undirritaði nýverið umdeilt samkomulag við kínversk stjórnvöld um byggingu kínversks háskólasvæðis, með skólabyggingum og heimavistarskálum, í höfuðborginni Búdapest undir nafninu Fudan University, að því er segir á vef BBC. Þessi áform hafa vakið mikla úlfúð meðal borgarbúa sem óttast að aukin kínversk ítök í landi og telja að þau hafi í för með sér takmörkun á akademísku frelsi, málfrelsi og prentfrelsi í landinu.

Viktor og vinir hans

Vaxandi ónot eru meðal Ungverja yfir því hve mjög Viktor Orban, forseti landsins, hallar sér að Rússlandi, Kína og Hvíta-Rússlandi, um leið og hann hefur í auknum mæli beitt sér fyrir höftum á frjálsa fjölmiðla og háskólamenntun. Meintar tilraunir Kínverja til að seilast til áhrifa í landinu eru síst til að minnka áhyggjur almennings í landinu.

Borgarstjórinn býður þeim byrginn

Hinn frjálslyndi borgarstjóri Búdapest, Gergely Karacsony, hefur viðrað andstöðu sína við umrætt útibú Fudan háskóla og lætur ekki sitja við orðin tóm. Fyrr í mánuðinum var tilkynnt að göturnar fjórar sem umkringja fyrirhugaða háskólalóð allar verið nefndar upp á nýtt. Ef af byggingu háskólans verður er ljóst að heldur mun þykkna í kínverskum yfirvöldum þegar þeir sjá götuheitin.

Þyrnar í augum kínverskra stjórnvalda

Göturnar munu nefnilega heita Frelsið Hong Kong gata, Dalai Lama stræti, Uyghur Píslarvotta stræti og Faðir Xie Shiguang gata. Öll vísa götuheitin til staða eða persóna sem hafa með einum eða öðrum hætti lent í útistöðum við kínversk stjórnvöld í gegnum tíðina og fengið að kenna á því í kjölfarið. Kínverskum ráðamönnum er almennt lítt um að vera minnt á slíkt og við blasir að téð götuheiti munu ekki falla í kramið þar á bæ.

Hvort af fyrirhugaðri háskólabyggingu Fudan háskóla í Búdapest á enn eftir að koma í ljós en hvað sem öðru líður eru götuheitin komin til að vera.