Umhverfisáhrif sumarleyfisferðar

Mynd:  / Pexels

Umhverfisáhrif sumarleyfisferðar

24.06.2021 - 14:53

Höfundar

Stefán Gíslason gefur góð ráð við því hvernig hægt er að gera sumarleyfið umhverfisvænna.

Stefán Gíslason skrifar:

Nú er sá tími ársins þegar hvað flestir fara í sumarfrí - og þó að sumarfrí séu tími hvíldar, þarf samt að huga að umhverfismálunum. Vandamálin sem við höfum búið til í sameiningu með kæruleysislegri umgengni okkar um auðlindir jarðar fara nefnilega ekki í sumarfrí þó að við gerum það. Það getur jafnvel hugsast að við höfum meiri neikvæð á umhverfið í sumarfríinu en á öðrum tímum ársins. Þess vegna er full ástæða til að velta fyrir sér hvernig hægt sé að haga málum þannig að Móðir Jörð geti notið frísins með okkur.

Látum ekki sporin sjást

Aðalatriðið í umgengni okkar við Móður Jörð í sumarfríinu er að láta ekki sporin okkar sjást, hvorki í eiginlegri né óeiginlegri merkingu. Fyrir 18 árum var ég í vinnuferð á Svalbarða og þegar ég gekk inn á flugvöllinn við Longyearbyen á leiðinni heim mætti mér skilti með áletruninni: „Takk fyrir komuna. Vonandi sér enginn að þú hafir verið hérna“. Þetta skilti finnst mér fanga ágætlega það sem skiptir máli í sumarfríinu.

Já, ég var sem sagt á Svalbarða vorið 2003 og það segir sig nokkurn veginn sjálft að þangað fór ég fljúgandi en ekki gangandi. Flugið er vafalítið sá hluti af því sem við gerum oft í sumarfríum sem hefur hvað mest áhrif á umhverfið. Ef ég væri að fara til Svalbarða í sumar myndi ég sennilega fljúga fyrst til Osló, þaðan til Tromsø og svo til Longyearbyen. Á þessu ferðalagi myndi ég verða valdur að losun 736 kg af koldíoxíði út í andrúmsloftið, allt samkvæmt losunarreikni Alþjóða flugmálastofnunarinnar ICAO.

Sumarfrí á Svalbarða?

Sennilega eru ekki margir Íslendingar á leiðinni til Svalbarða í sumarfrí þetta árið, en einhverjir hyggja e.t.v. á ferðir til áfangastaða sunnar á hnettinum, t.d. á Spáni, bólusettir í bak og fyrir. Til að gera flókna hluti einfalda er hægt að reikna með því, svona að meðaltali, að eitt svoleiðis flug báðar leiðir losi um 450 kg af koldíoxíði. Það er álíka mikið og losnar við brennslu á 150 lítrum af bensíni, þ.e.a.s. ef framleiðsla og flutningur bensínsins til Íslands eru tekin með í reikninginn. Þessir 150 lítrar af bensíni duga til þess að keyra 2.500 km miðað við að bíllinn eyði 6 á hundraðið. Eitt venjulegt sumarleyfisflug til Spánar vegur sem sagt álíka þungt í losunarbókhaldinu og að keyra hringveginn einn síns liðs tæplega tvisvar sinnum.

Kolefnisjöfnun?

Augljóslega hafa utanlandsferðir alla jafna meiri neikvæð áhrif á umhverfið en ferðalög innanlands, en sé stefnan engu að síður tekin til útlanda má velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að bæta að einhverju leyti fyrir losunina með því að leggja fé í landbótaverkefni sem vegur upp á móti þeirri losun sem verður í fluginu. Kostnaðurinn er í raun óverulegur, kannski 1.000-2.000 krónur fyrir hverja ferð. Nokkrir aðilar innanlands og utan eru farnir að bjóða upp á þjónustu af þessu tagi, ýmist með landgræðslu, skógrækt eða endurheimt votlendis. En ef maður ætlar að bæta fyrir losunina með fjárframlögum af þessu tagi þarf að kynna sér vel hvernig peningarnir eru notaðir. Það þarf t.d. ekki að planta nema svo sem fjórum og hálfu tré til þess að binda þessi 450 kg af koldíoxíði sem losna í Spánarferðinni. En trén verða ekki búin að vinna verkið fyrr en þau eru fullvaxin, t.d. eftir 60 ár. Allan þann tíma er hluti af koldíoxíðinu sem losnaði í ferðinni á sveimi í andrúmsloftinu með tilheyrandi áhrifum á loftslagið. Ef ætlunin er að kolefnisjafna ferðina, þarf það að gerast nánast samstundis. Til þess þyrfti að planta 60 sinnum fleiri trjám. Maður þarf sem sagt að vera viss um að peningarnir sem maður leggur í svoleiðis verkefni leiði til þess að þessi 450 kg af koldíoxíði séu tekin úr umferð strax á þessu ári. Annars er maður bara að plata sjálfan sig og aðra.

Ferðumst hægar

Sé ferðast innanlands skiptir ferðamátinn líka miklu máli. Flestir eiga þó bara sinn bíl og ferðast á honum – og hann brennir bara því sem hann brennir. En þá er líka alveg óþarfi að keyra hringveginn tvisvar. Líklega er betra, bæði fyrir umhverfið og sálina, að heimsækja færri staði og dvelja lengur á hverjum þeirra, gefa sér sem sagt tíma til að njóta þess smáa í stað þess að keppast við að merkja við alla helstu viðkomustaði á hringveginum. Sé maður hins vegar kominn á rafbíl gilda svolítið önnur lögmál, því að engar gróðurhúsalofttegundir losna þegar þeim er ekið. Og nú er orðið frekar auðvelt að fara hvert á land sem er á rafbíl. Eftir sem áður er þó líklega betra fyrir sálina að heimsækja færri staði og dvelja lengur á hverjum þeirra.

Við erum fyrirmyndir!

En það skiptir ekki bara máli hvert maður fer og hvernig maður fer þangað. Það sem maður gerir á áfangastaðnum er líka mikilvægt. Þar skiptir auðvitað meginmáli að virða náttúruna og ganga vel um hana, skilja ekkert eftir sig og taka ekkert nema myndir, þannig að í ferðalok sjái enginn að maður hafi verið þarna, svo aftur sé vitnað í skiltið á flugvellinum við Longyearbyen. Og svo skiptir ekki bara máli hvað maður gerir sjálfur, heldur líka hvaða áhrif maður hefur á aðra. Við erum nefnilega öll fyrirmyndir einhverra annarra, og það sem við gerum getur haft ótrúlega mikil áhrif á það sem aðrir gera. Reyndar sýna rannsóknir að fólk á sér yfirleitt miklu fleiri fylgjendur hvað þetta varðar en það gerir sér sjálft grein fyrir.

Við höfum ekki bara áhrif á aðra með því að sýna gott fordæmi heldur líka með því að vera spurul, hvort sem við erum innanlands eða utan. Þegar við erum komin á tjaldstæðið, í stéttarfélagsbústaðinn, Airbnb-íbúðina eða á hótelið eigum við að spyrja um það sem við viljum vita, t.d. um það hvort ekki sé aðstaða til að flokka úrgang, þ.m.t. lífrænan úrgang. Mig grunar nefnilega að mörg þeirra sem reka gistingu af einhverju tagi haldi að gestir séu svo kærulausir að það þýði ekkert að vera með einhverja úrgangsflokkun á staðnum. Og af hverju halda þau það? Jú, af því að enginn hefur spurt. Og mig grunar líka að flestir gestir haldi að þeir séu þeir einu sem myndu nenna að flokka. En reyndin er önnur. Flestir vilja gjarnan flokka úrganginn sinn ef þeir hafa aðstöðu til þess og fá leiðbeiningar um það hvernig það skuli gert. Þess vegna er svo mikilvægt að spyrja. Eftirspurn er ekki eftirspurn nema sá sem sér um framboðið frétti af henni. Og þögn er sama og samþykki.

Fiskur er miklu betri en kjöt

Umhverfisáhrif sumarleyfisferðar ráðast ekki bara af ferðamáta og flokkun úrgangs. Það skiptir líka miklu máli hvað maður borðar í fríinu – og hvernig. Það er t.d. nánast alltaf betra fyrir umhverfið að borða meira úr jurtaríkinu og minna úr dýraríkinu, eða með öðrum orðum meira grænmeti og minna kjöt. Fiskur er líka alla jafna betri en kjöt í þessum samanburði, jafnvel allt að 15 sinnum betri séu áhrifin mæld í losun gróðurhúsalofttegunda. Svo er líka um að gera að borða frekar mat úr nærumhverfinu en að borða eitthvað sem hefur verið flutt um langan veg, minna unnin matvara er oftast betri en mikið unnin matvara – og svo mætti lengi telja. Og svo má heldur ekki gleyma skammtastærðinni, því að ekki vill maður verða valdur að matarsóun í sumarfríinu sínu. Stundum eru skammtar á veitingahúsum óþarflega stórir og þá er um að gera að biðja um box fyrir afganginn og taka hann með sér heim í bústaðinn eða hvert sem leiðin annars liggur að máltíð lokinni.

Og nú er bara að drífa sig út í sumarið, minnug þess að við getum haft áhrif til góðs með orðum okkar og gjörðum.