Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

McAfee fannst látinn í fangaklefa í Barselóna

epa09297052 (FILE) - US millionaire John McAfee inside a vehicle of Guatemalan Migration towards airport in Guatemala City, Guatemala, 12 December 2012 (Reissued 23 June 2021). According to the Catalan justice department, John McAfee, 75, was found dead in his cell in a Barcelona prison. Earlier in the day the Audiencia Nacional (Spain's National Court) approved his extradition to the US where he was expected to face tax evasion charges.  EPA-EFE/Saul Martinez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Auðkýfingurinn John McAfee, sem auðgaðist einkum á vírusvarnarhugbúnaði sem kenndur er við hann sjálfan, fannst látinn í fangaklefa í Barselóna í gær. þar sem hann beið framsals til Bandaríkjanna. Þar átti hann yfir höfði sér ákæru vegna skattalagabrota og allt að 30 ára fangelsi, hefði hann verið sakfelldur. Spænskur dómstóll hafði þegar úrskurðað að McAfee skyldi framseldur vestur um haf. Sá úrskurður var þó ekki endanlegur, því hægt hefði verið að áfrýja honum til æðra dómsstigs.

McAfee, sem var 75 ára gamall, var einn helsti frumkvöðull vírusvarna og yfirlýstur andstæðingur skattheimtu. 2019 lýsti hann því yfir á Twitter að hann hefði ekki skilað skattskýrslum í átta ár því „skattheimta [væri] ólögleg.“

Hann fannst látinn í klefa sínum nokkrum klukkustundum eftir að dómarinn kvað upp úrskurð sinn í gær. Í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneyti Katalóníu segir að bráðaliðar fangelsisins hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að endurlífga McAfee, án árangurs. Fram kemur í yfirlýsingunni að „allt bendi til þess“ að hann hafi svipt sig lífi.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV