Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Harris heldur að landamærum Mexíkós

epa09297226 US Vice President Kamala Harris holds a roundtable marking LGBTQ+ Pride Month in the VP's office of the Eisenhower Executive Office Building in Washington, DC, USA, 23 June 2021.  EPA-EFE/Ken Cedeno / POOL
 Mynd: EPA-EFE - SIPA POOL
Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, leggur á föstudag leið sína að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkós, í fyrsta skipti síðan þau Joe Biden voru kjörin til að leiða Bandaríkin. Hart hefur verið gengið að Harris að fara að landamærunum og kynna sér aðstæður þar af eigin raun, eftir að forsetinn fól henni það verkefni að takast á við „frumorsakir" fólksflutninganna miklu frá Suður Ameríku.

Mikil fjölgun eftir valdatöku Bidens og Harris

Fleiri streyma  norður að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna nú en þekkst hefur síðustu 20 ár, eftir talsverðan samdrátt í valdatíð Donalds Trumps. Tilkynnt var um fyrirhugaða ferð Harris að landamærunum viku eftir að Trump lýsti því yfir að hann ætlaði þangað hinn 30. júní.

Hörmulegar aðstæður

Fjöldi fregna hefur borist að undanförnu af slæmum aðbúnaði förufólks við landamærin. Þannig greindi BBC frá hörmulegum aðstæðum í stórum flóttamannabúðum í El Paso í Texas, sem sérstaklega eru ætlaðar fylgdarlausum börnum.

Rannsókn BBC leiddi í ljós að börnin hafa verið útsett fyrir kynferðisofbeldi, COVID-19 og lúsafaraldri, auk þess sem þau fá bæði lítinn og lélegan mat. Til að bæta gráu ofan á svart ertu búðirnar í hálfgerðri eyðimörk og tjöldin sem börnunum er gert að búa í mega sín lítils í sandstormunum sem þar rjúka upp með reglulegu millibili.

Bæði Repúblikanar og félagar Harris í Demókrataflokknum hafa gagnrýnt hana fyrir að kynna sér ekki aðstæður. Hún brást við þeirri gagnrýni á dögunum með því að segja, að það skilaði meiri árangri að kynna sér aðstæður í heimalöndum farandfólksins en að fara að landamærunum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV