Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Giuliani sviptur lögmannsréttindum

epa08702728 Rudy Giuliani, Former New York City Mayor and lawyer for US President Trump, answers a question during a news briefing at the White House in Washington, DC, USA, 27 September 2020.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Polaris Images
Áfrýjunardómstóll í New York hefur svipt Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóra, lögmannsréttindum. Giuliani fór fyrir lögfræðingateymi Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í árángurslausri tilraun hans til að fá úrslitum forsetakosninganna síðasta haust hnekkt.

Trump hélt því ítrekað fram að svindlað hefði verið í forsetakosningunum án þess að færa fyrir því nokkrar sannanir.

Áfrýjunardómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Giuliani hefði í störfum sínum sem lögmaður gefið yfirlýsingar sem væru „bersýnilega ósannar og villandi“. Þá hefði framferði hans „ógnað almannaöryggi“ og réttlætti það tímabundna sviptingu lögmannsréttindanna. Málinu er vísað til frekari umfjöllunar hjá kærunefnd lögmanna í ríkinu.

Giuliani fékk lögmannsréttindi árið 1969 og átti að baki farsælan feril sem lögmaður þegar hann venti kvæði sínu í kross og bauð sig fram til borgarstjóra árið 1994 fyrir Repúblikanaflokkinn. Því embætti gegndi hann til ársloka 2001.

Giuliani varð að nokkurs konar sameiningartákni bandarísku þjóðarinnar í kjölfar hryðjuverkanna í borginni 11. september 2001. Var hann til að mynda útnefndur maður ársins af tímaritinu Time það ár, en segja má að blaðið hafi með því vikið frá eigin stefnu um að útnefna þann sem mest áhrif hefur haft á bandarískt samfélag það ár – til góðs eða ills.