Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dagarnir verða ekki stærri

Mynd: RÚV/Þór Ægisson / RÚV/Þór Ægisson
Flugfélagið Play fór jómfrúarferð sína í dag. Um svipað leyti hófst hlutafjárútboð félagsins og segir forstjóri þess að Play sé komið til að vera. Fyrsti áfangastaðurinn voru Lundúnir og voru margir farþeganna að ferðast í fyrsta skipti frá því fyrir COVID-faraldur. Löngu tímabært, sögðu þeir.

Fyrsta áætlunarflug Play tók á loft á tólfta tímanum í morgun. Ferðinni var heitið til Stansted-flugvallar í London með rúmlega hundrað farþega innanborðs. Með þessu flugtaki hefst nýr kafli í íslenskri flugsögu.

„Þetta er risastór dagur. Ég held að dagarnir verði ekki stærri í sögu flugfélags og í sögu þessa fyrirtækis þannig að við erum algjörlega í skýjunum,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Faraldurinn reyndist blessun

Aðdragandinn að jómfrúarfluginu hefur verið langur. Félagið var stofnað 2019 með viðhöfn en bið varð á að það tæki til starfa og bárust fregnir af því að illa gengi að safna fjármagni. Sú töf varð raunar blessun því skömmu síðar reið COVID-faraldurinn yfir og alþjóðaflug nánast lagðist af. Faraldurinn var nýtttur til að safna fjármagni og starfsfólki og var markmið Play að verða tilbúið að hefja sig til flugs um leið og faraldrinum linnti.

Í keppni við Icelandair og 30 önnur félög

Það markmið náðist í dag og ekki bara fór fyrsta flugvélin í loftið í dag heldur hófst hlutafjárútboð félagsins í morgun. Því lýkur á morgun og opnað verður fyrir viðskipti í félaginu 9. júlí. Félagið er fjármagnað fram til ársins 2025 og segir Birgir að stefnt sé á að skila hagnaði strax á næsta ári. Félagið sé því komið til að vera þótt samkeppnin sé hörð. „Hérna á heimamarkaði er það Icelandair en það eru um 30 flugfélög alla vegana sem eru að fljúga til og frá Íslandi og enn þá fleiri sem eru að fara yfir hafið þannig að sá hópur er stór en við ætlum að marka okkur sérstöðu með leiðakerfinu okkar og sveigjanleikanum,“ segir Birgir.

Á faraldsfæti í fyrsta sinn eftir Covid

Til að byrja með verður flogið til helstu borga á meginlandinu og valdra áfangastaða í sólinni en svo er stefnt að Ameríkuflugi eftir því sem flotinn stækkar. Jómfrúarferðin lagðist vel í farþega sem margir hverjir voru að ferðast í fyrsta skipti frá því faraldurinn reið yfir. „Alveg rosalega vel. Bara gaman að vera búin að fá nýtt flugfélag“ sögðu mæðgurnar Kristjana Kristjánsdóttir og Ingibjörg Arna Friðgeirsdóttir sem vour á leið til Grikklands í langþráð sumarfrí.

Félagarnir Kári Kristinsson og Viktor Friðriksson voru á leið til London og þeir voru frelsinu fegnir og ætla að nýta ferðalagið í pöbbarölt og verslunarleiðangur. „Það er langþráð að fá að flýja aðeins land. Það er alveg klárt. Þetta var tímabært.“

Flugið að vænkast

Með tilkomu Play bætist enn í ört vaxandi hóp flugfélaga sem fljúga til og frá Íslandi á ný. Um 20 flugfélög fljúga hingað í sumar en þegar mest var árið 2018 voru þau 28. „Það er náttúrlega einstaklega ánægjulegt að það sé nýtt íslenskt flugfélag að fara í loftið og við erum búin að sjá það síðustu daga og vikur að flugið er að vænkast og við höfum væntingar um það að það haldi áfram að gera það inn í sumarið. Þannig að þetta er mjög skemmtilegur dagur hjá okkur hér á Keflavíkurflugvelli,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Isavia.