Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ásmundarsalur: Fengu sekt fyrir brot á grímuskyldu

24.06.2021 - 17:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson, eigendur Ásmundarsalar, segjast aðeins hafa fengið sekt fyrir brot gegn grímuskyldu. Þau ætla að greiða sektina og ljúka málinu með þeim hætti. Fram kemur í yfirlýsingu þeirra að nefnd um eftirlit með lögreglu hafi gert alvarlegar athugasemdir við háttsemi lögregluþjóna og vinnubrögð embættisins í tengslum við málið.

Sektir fyrir brot á grímuskyldu geta numið frá 100 til 500 þúsund krónum, samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vildi í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu ekki upplýsa um hver niðurstaða rannsóknarinnar hefði verið heldur staðfesti eingöngu að málinu væri lokið. 

Fram kom í dagbókarfærslu lögreglunnar að töluverð ölvun hefði verið í samkvæminu og að enginn hefði verið með andlitsgrímu fyrir andliti. Að sögn lögreglumanna voru fjarlægðartakmörk nær hvergi virt og aðeins þrír sprittbrúsar sjáanlegir í salnum. Meðal þess sem stuðst var við í rannsókn á meintu sóttvarnabroti staðarins voru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna. 

Í yfirlýsingu Aðalheiðar og Sigurbjörns segir að niðurstaða lögreglu staðfesti að dagbókarfærslan hafi verið efnislega röng. „Ekki var brotið gegn reglum um fjöldatakmarkanir umrætt kvöld. Ekki var brotið gegn reglum um opnunartíma umrætt kvöld. Ekkert samkvæmi var haldið í listasafninu umrætt kvöld,“ segir í yfirlýsingunni.

Þau viðurkenna að ekki hafi verið gætt nægilega vel að því að allir gestir bæru grímu öllum stundum.  „Ekki var um neitt samkvæmi að ræða, heldur árlegu sölusýninguna „Gleðileg jól“. Þá voru reglur um fjöldatakmarkanir ekki brotnar. Enn fremur máttu verslanir hafa opið til klukkan 23 á Þorláksmessu, eins og víða var í miðborg Reykjavíkur.“ Þau segja jafnframt rétt að taka fram að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hafi tekið starfshætti lögreglu til skoðunar og hún hafi gert alvarlegar athugasemdir við háttsemi lögregluþjóna og vinnubrögð embættisins.

Fjölmiðlar fengu fyrst veður af málinu þegar lögreglan greindi frá því í dagbókarfærslu á aðfangadag. Tekið var fram að meðal gesta í samkvæminu hefði verið „einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands.“

Athygli fjölmiðla beindist helst að því hver ráðherrann hefði verið í samkvæminu. Það reyndist vera Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Hann sagðist í viðtali við Kastljós ekki getað skrifað upp á að hann hefði hegðað sér gáleysislega með því að mæta á „sölusýningu á Þorláksmessu,“ eins og hann orðaði það.  Hann gekkst þó við því að hann hefði átt að taka betur eftir aðstæðum.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV