Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Veruleg vandamál“ í fjármálastjórn ráðherranefndar

23.06.2021 - 01:49
Fánar norðurlanda
 Mynd: Norðurlandaráð
Umfangsmikil innri endurskoðun leiddi í ljós alvarleg vandamál í fjármálastjórn Norrænu ráðherranefndarinnar. Frá þessu er greint á heimasíðu Norðurlandasamstarfsins, norden.org. Þar segir að Norræna ráðherranefndin eigi „við verulegan vanda að etja“ í tengslum við fjármála- og verkefnastjórn nefndarinnar.

Fram kemur að afgreiðsla ársreikninga ráðherranefndarinnar fyrir síðasta ár hafi tafist og ekki hafi tekist að skila þeim til Ríkisendurskoðunar í Danmörku fyrr en í júní. Tafirnar má rekja til þess að skrifstofa nefndarinnar fór „í gegnum afar umfangsmikla innri endurskoðun á verkefnaumsjóninni.“ 

Ekki er farið nánar út í það, í hverju þessi verulegi vandi felst, en boðað að nánari upplýsingar verði veittar um málið á fréttamannafundi klukkan 9.30 í dag, með þeim Paulu Lehtomäki, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, og Gerner Oddershede, fjármálastjóra.  

Fréttina á norden.org má nálgast með því að smella á þennan hlekk.