Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vel heppnuð aðgerð segir Katrín

23.06.2021 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisráðherra segir söluna á Íslandsbanka velheppnaða meðal annars vegna þess hve dreifing á eignarhaldi er mikil.

 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það bíða næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort ríkið selji fleiri hlutabréf í bankanum. Vinstri hreyfingin grænt framboð hafi lagt áherslu á að Landsbankinn sé í eigu ríkisins og þess vegna staðið með sölunni á bréfum í Íslandsbanka.

Katrín segir eðlilegt að draga þá ályktun að verðið hafi hækkað vegna áhuga á útboðinu.Hún var spurð að því hvers vegna Íslandsbanki hafi verið metinn lægra en Arionbanki? Katrín segir að arðsemi bankanna sé ólík. Arðsemi Íslandsbanka var metin minni og þess vegna séu bankarnir ekki langt hvor frá öðrum í verðmati.

Katrín var spurð að því hvort hún vilji selja fleiri hluti í bankanum. Sú ákvörðun bíður næstu ríkisstjórnar. Flokkur forsætisráðherra, Vinstri hreyfingin grænt framboð, hefur lagt áherslu á að Landsbankinn verði í eigu ríkisins. Þess vegna hafi VG staðið með sölunni á hlutnum í Íslandsbanka. Markmiðið með sölunni hafi verið að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum og úr áhættunni við að eiga svona stóran hlut í fjármálakerfinu.

„Það breytir því ekki að ríkið á áfram 65 prósenta hlut í Íslandsbanka sem hefur hækkað í verði og aukið verðgildi sitt. Þannig tel ég aðgerðina vera vel heppnaða meðal annars vegna þess hve eignarhaldið er dreift. Það er fjölbreyttur hópur sem keypti hluti í bankanum“. Segir Katrín sem segist ekki hafa verið í þeim hópi sem keypti hlut í Íslandsbanka.

 

Arnar Björnsson