Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Það er enginn sem hlustar“

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Yfir þúsund læknar saka stjórnvöld um langvarandi sinnuleysi í garð heilbrigðiskerfisins og krefjast þess að stjórnmála- og embættismenn axli ábyrgð á stöðunni. Undirskriftum var skilað til heilbrigðisráðuneytisins í dag. 

Krónísk vandamál

Mörg vandamálanna sem læknarnir minnast á í ákalli sínu til stjórnvalda eru gamalkunn og margtuggin; fækkun legurýma, of fá gjörgæslurými, aldrað fólk sem festist á Landspítalanum því hjúkrunarheimili geta ekki tekið við því, álag á bráðamóttöku og loks yfirvofandi sparnaðarkrafa.

Hvers vegna eru læknar komnir með nóg núna? „Ástandið er einhvern veginn orðið viðvarandi, krónískt, við sjáum að mönnun lækna er orðin léleg, það er atgervisflótti, kulnun í starfi, læknar sækja í önnur störf utan spítalans vegna álags og vinnuaðstæðna og við sjáum engar lausnir í augsýn,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson, svæfingalæknir og upphafsmaður undirskriftasöfnunarinnar. 

Óttast að sérnámslæknar komi ekki heim

Hann segir álagið orðið of mikið, fólk hlaupi hraðar og líkur á mistökum aukist. Hann óttast að þetta hafi áhrif á endurnýjun í stéttinni, það beri meira á því að læknar ílengist úti eftir sérnám. „Ég hef líka áhyggjur af samstarfsfólkinu sem er að teygja sig ansi langt til að redda hlutunum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Ekki vinsælt að krefjast úrbóta

Hann segir að læknar upplifi ákveðið valdaleysi. „Félög lækna hafa stigið fram, einstaka læknar hafa stigið fram, það er ekki vinsælt en einhvern veginn er eins og við fáum engin viðbrögð, það er enginn sem hlustar.“

Í áskorun sinni segja læknarnir að ítrekuð loforð um aðgerðir og úrbætur innan kerfisins hafi verið svikin. Hver bendi á annan og á meðan gerist ekkert. Theódór segir að aldrei þessu vant standi læknar saman, óháð því hvort þeir starfi sjálfstætt, á heilsugæslum eða á spítölum. Með ákallinu vilja læknarnir hrista upp í kerfinu og stjórnvöldum. „Þar er stefnan dregin, þar er fjárveitingarvaldið. Það hlýtur að vera þannig að það eigi að beina fjármagninu þangað sem þörfin er mest og í dag held ég að það hljóti að vera á bráðamóttökunni á Landspítalanum.“