Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Óttast að mannskap vanti til að skima á landamærum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Sóttvarnalæknir óttast að ekki sé til nægur mannskapur til að viðhalda óbreyttum aðgerðum á landamærunum. Til greina komi að hætta að skima þá sem koma til landsins með bólusetningarvottorð. Þá segir hann að verslanir og stofnanir standi sig ekki sem skyldi í sýkingavörnum því víða séu sprittbrúsar tómir. Sjötta daginn í röð hefur ekki greinst smit innanlands utan sóttkvíar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vinnur nú að minnisblaði sem hann hyggst skila heilbrigðisráðherra fyrir helgi. 

„Það verður eins og áður tillögur um aðgerðir bæði á landamærunum og innanlands sem ég tel skynsamlegt að gera í ljósi stöðunnar á faraldrinum hér og þeirra gagna sem við höfum verið að afla með skipulögðum hætti undanfarið á landamærunum þannig að við getum metið áhættuna,“ segir Þórólfur.

Telur þú koma til greina að hætta að skima fólk sem kemur hingað til bólusetningarvottorð?

„Já, það kemur til greina,“ segir hann.

Finnst þér vera kominn sá tímapunktur núna að við eigum að hætta því?

„Ja, það er bara í skoðun. Bæði er það nú að þetta sem við höfum verið að gera á landamærunum er mjög íþyngjandi. Þetta er mjög vinnufrekt og krefst mikils mannafla. Við erum að lenda í smá vandræðum varðandi mannafla í sumar. Þannig að það er mér til efs að við getum haldið uppi sama stigi á skimunum. Og þá er einmitt um að gera að við reynum að rýna vel í okkar gögn og sjá: hvar getum við slakað á án þess að taka of mikla áhættu? Þetta er líka allt saman gert í ljósi bólusetningar hér innanlands.“

Þórólfur segir að bæði vanti fólk til þess að skima og fara yfir vottorð og pappíra farþega. Þá hafi atvinnutækifærum fjölgað því umsvif í ferðaþjónustu hafi aukist með fjölgun ferðamanna. 

Sjötta daginn í röð hefur ekki greinst smit innanlands utan sóttkvíar. Alls hafa fjögur eða fimm tilvik af delta-afbrigðinu greinst á landamærunum. Þórólfur fagnar mikilli þátttöku landsmanna í bólusetningu. Um helmingur þjóðarinnar hafi verið fullbólusettur og mjög fjölgi í þeim hópi á næstu vikum.

Sprittbrúsar víða tómir og fólk hópast saman

Þórólfur hvetur fólk til að halda áfram vöku sinni gagnvart veirunni. „Mér sýnist það vera töluvert að fólk sé búið að gleyma því svona margir hverjir alla vega. Sprittbrúsar eru tómir í verslunum og á opinberum stöðum. Fólk er farið að hópast mikið saman. En fólk þarf að passa sig áfram. Þetta er ekki búið þó að það gangi vel hér innanlands. Það eru einstaklingar hér sem gætu fengið alvarlega COVID-sýkingu þó að við fáum kannski ekki útbreiddan stóran faraldur,“ segir Þórólfur.