Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lögregla varar við lífshættulegum fíflaskap

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Nokkuð hefur borið á því undanfarið á því að fólk gangi út á hraunið á gosstöðvunum í Geldingardal. Lögreglan á Suðurnesjum varar eindregið við þessu athæfi enda alls óvíst að hraunið haldið og athæfið því lífshættulegt.

Engin leið er að vita með vissu hve þykkt er af storknuðu bergi þar sem fólk ákveður að ganga yfir en undir getur verið rauðglóandi kvika. Með þessu athæfi er verið að setja björgunaraðila í gersamlega vonlausa stöðu ef eitthvað fer úrskeiðis, storkulagið gefur sig og allt fer á versta veg.

Lögreglan minnir á að mikið starf hafi verið unnið í því að stika leiðir og gera allar gönguleiðir eins vel úr garði og mögulegt er á vettvangi, um leið og hættuleg svæði eru afmörkuð. Eldgosasvæði sé hættulegur staður þar sem hraunrennsli og gasmengun geta hæglega verið með þeim hætti að fólki stafar hætta af. Aðstæður geta vel orðið lífshættulegar ef leiðbeiningum er ekki fylgt.

Undir þetta tekur Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands. Hún birtir mynd á Twitter-síðu sinni þar sem allnokkrir einstaklingar sjást spóka sig um á hraunbreiðunni í Geldingadal og varar eindregið við athæfinu.

 Lögreglan áréttar ennfremur að þegar til kastanna kemur megi maðurinn sín lítils gagnvart náttúruöflunum. Hættan á gossvæðinu sé raunveruleg og „þarna er fólk statt í raunveruleikanum, en ekki fyrir framan tölvu þar sem hlutirnir ganga út á sýndaveruleika og hægt er að kaupa sér líf,“ eins og segir á Facebook-síðu Lögreglunnar á Suðurnesjum.

Jón Agnar Ólason