Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Læknar skora á stjórnvöld - Loforð um úrbætur svikin

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Kveikur
Heilbrigðisráðuneytinu barst í morgun áskorun frá íslenskum læknum sem mótmæla sinnuleysi stjórnvalda í garð heilbrigðiskerfisins. Læknarnir 985 segja að ítrekuð loforð um aðgerðir og úrbætur hafi verið svikin. Í áskoruninni er það gagnrýnt að ábyrgð stjórnmála- og embættismanna virðist lítil sem engin hér á landi og að heilbrigðisstarfsmenn séu endurtekið látnir bera alla ábyrgð á alvarlegum atvikum innan heilbrigðiskerfisins.

„Það er mikilvægt að stjórnmálamenn standi við gefin fyrirheit um aukið fjármagn til alls heilbrigðiskerfisins, tryggi að fjármunum sé vel varið og skapi svigrúm fyrir fjölbreytta faglega þjónustu mismunandi rekstrarforma í þágu allra sjúklinga, eins og lofað var fyrir síðustu kosningar,“ segir í áskoruninni.

Tekin eru saman sex atriði sem læknarnir vilja að séu tekin til sérstakrar skoðunar innan stjórnkerfisins.

Fyrsta atriði sem nefnt er snýr að skorti á úrræðum í öldrunarþjónustu. Á hverjum tíma bíði tugir aldraðra innan veggja Landspítalans og sá sem lengst hefur beðið lá þar í 723 daga. Slík bið sé óþekkt í samanburðarlöndum. Endurskipuleggja þurfi öldrunarþjónustu fyrir allt suðvesturhorn landsins.

Bæta þurfi aðstæður á Landspítalanum. Hér á landi sé alvarlegur skortur á gjörgæslurýmum en í sumar verða einungis tólf gjörgæslurými á landinu öllu. Fjöldi slíkra rýma á hverja 100.000 íbúa er 3,2 en meðaltalið í Evrópu er 11,5. Vegna þessa skorts þurfi endurtekið að fresta stærri skurðaðgerðum.

Verkefni flutt án samráðs

Viðamikil verkefni hafi verið flutt frá spítalanum yfir á undirmannaðar heilsugæslustöðvar án samráðs, fjármagns eða húsrýmis sem nauðsynlegt er. Þá sé ónóg uppbygging heilsugæslustöðva og ný hverfi hafi verið byggð án þeirra.

Fyrirtæki í stofurekstri séu starfrækt í ótryggu umhverfi. Vegna þessa, skorts á nýliðun og fleiri atriða séu jafnvel gamalgrónar læknastöðvar að hætta starfsemi. Biðtími sé að lengjast hjá sjálfstætt starfandi sérfræðilæknum og ástandið sé slæmt til að mynda varðandi tauga- og gigtarlækningar og megi nánast tala um hrun þjónustu í geðlækningum.

Ekki líta á fyrirtæki í heilbrigðisrekstri sem andstæðinga

Yfirvöld ættu að hlúa meira að framsæknum fyrirtækjum í heilbrigðisrekstri í stað þess að líta á þau sem andstæðinga sína.

Þá er þess krafist að viðurkenna þurfi refsiábyrgð atvinnuveitenda í stað þess að heilbrigðisstarfsmenn séu persónulega sóttir til saka eftir atvik sem rekja megi til starfsumhverfis og álags.

Þá hafi verið skortur á faglegu samráði við lækna fyrir umfangsmiklar kerfisbreytingar. Stefnur hafi verið markaðar án samráðs og er sérstaklega tekin fram endurskipulagning á fyrirkomulagi skimunar fyrir leghálskrabbameini. 

Hvetja til meira samstarfs við læknastéttina

Heilbrigðisstefna til 2030 hafi verið unnin án raunverulegs samráðs við hagsmunaaðila og sumir málaflokkar vart nefndir á nafn í stefnunni.

Læknar hvetja stjórnvöld til meira samstarfs við lækna í leit að varanlegum lausnum.

Níu hundruð, áttatíu og fimm læknar skrifuðu undir áskorunina í Facebook-hópnum Íslenskir læknar sem samanstendur af læknum hér á landi sem og íslenskum læknum erlendis.

Andri Magnús Eysteinsson