Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hefja upp rödd sína í Hafnarborg

Mynd: RÚV / RÚV

Hefja upp rödd sína í Hafnarborg

23.06.2021 - 16:10

Höfundar

Hin árlega Sönghátíð í Hafnarborg stendur nú yfir í fimmta sinn. Hátíðin var valin tónlistarhátíð ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og hefur aldrei verið stærri en í ár.

Hátíðin er drifin áfram af hjónunum Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur söngkonu og Francisco Javier Jáuregui, klassískum gítarleikara. „Þetta er hátíð sem heldur upp á sönglistina og kemur henni á framfæri með tónleikum, námskeiðum, upptökum og viðtölum,“ segir Jóhanna. „Svo erum við líka að hugsa til framtíðar og búa til nýjan áhorfendahóp. Við erum með námskeið þar sem þátttakendur eru á aldrinum 6 mánaða upp í 77 ára, svo þetta er breiður aldurshópur.“

Sjálf kennir Guðrún á námskeiði fyrir söngnemendur á grunn- og miðstigi en Kristinn Sigmundsson, stórsöngvari býður upp á masterclass-námskeið. „Maður er að hjálpa þeim að gera ekki sömu mistökin og maður gerði sjálfur,“ segir Kristinn og hlær en hann kemur einnig fram á galatónleikum nokkurra söngvara. 

Guðrún Jóhanna segir hátíðina í ár sérstaklega mikið tilhlökkunarefni, enda hefur heimsfaraldurinn sett stórt strik í reikninginn hjá klassískum tónlistarmönnum. „Margir af þessum listamönnum sem eru að koma fram eru búnir að ganga í gegnum rúmt ár þar sem öllu var aflýst. Þannig að það er frábært að geta komið saman hér og boðið upp á svona marga tónleika. Það stefnir allt hér í mjög stóra hátíð.“

Fjallað var um Sönghátíð í Hafnarborg í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Tvíhliða plata um ástarsorg og andfasisma

Myndlist

Bensín og list í bland