Gömlu salthúsi breytt í fallegt listrými

Mynd: RÚV / Sumarlandinn

Gömlu salthúsi breytt í fallegt listrými

23.06.2021 - 08:00

Höfundar

Nemendur við Lýsuhólsskóla hafa umbreytt gömlu salthúsi, sem staðið hefur autt í áranna rás, í skemmtilegt safnhús. Þar er að finna nafnlausan dreng, plögg sem líta út eins og saltfiskar og steina í formi furðuvera.

Sumarlandinn lítur inn á sýningu í Malarrifi á Snæfellsnesi. Þar hafa grunnskólabörn úr nágrenninu sett upp listsýningu um „strákinn sem á sér ekkert nafn og enga sögu.“

Á sýningunni má finna hin ýmsu verk eftir nemendur, þar á meðal teikningar, skúlptúra og steina sem breytt hefur verið í furðuverur. Einnig er hægt að taka þátt í sýningunni og bæta við hana með því að teikna myndir eða finna fjörugrjót og koma fyrir.

Frekar einmanalegt

Í áranna rás hefur Salthúsið Malarrifi gegnt ýmsum hlutverkum, allt frá því að vera hesthús, vélargeymsla og dúfnakofi. Nú eru hins vegar breyttir tímar því nemendur í Lýsuhólsskóla fengu það skemmtilega verkefni að breyta gamla salthúsinu Malarrifi í Snæfellsbæ í listrými. 

Verkin eru unnin meðal annars út frá staðnum sem húsið stendur á. Þau leggja mikið upp úr því að endurvinna og endurnýta og nota náttúruleg efni. Sýningin er ekki bara til þess að skoða heldur getur maður tekið þátt í skemmtilegum verkefnum sem tengjast henni.  

 

Á sýningunni má finna styttu af dreng sem á sér hvorki nafn né sögu. Gestir geta svarað spurningum um drenginn á borð við: Hvað heitir hann? Hvaða dýr átti hann? Langar hann að mennta sig? Svörum er safnað saman í kassa og í haust koma nemendur svo saman og búa til baksögu drengjarins.

Margrét Gísladóttir, nemandi við skólann, segist aðspurð halda að það sé frekar einmanalegt að eiga sér enga sögu.

Gert af börnum fyrir börn

Árið 2015 var Salthúsið gert upp á vegum Þjóðgarðs Snæfellsjökuls. Þá hugnaðist Guðbjörgu Gunnarsdóttur, þáverandi þjóðgarðsverði, best að nýta rýmið þannig að nemendur við Lýsuhólsskóla skyldu vinna verkefni og sýna. Að sögn Rósu Erlendsdóttur, deildarstjóra Lýsuhólsskóla, hafði Guðbjörg í huga að hér yrði sýning fyrir börn, gerð af börnum.

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Gróðursetningarkeppni komin til að vera

Mannlíf

Öll skynfærin nærð í færanlegu gufubaði

Menningarefni

Bjóða þeim að sauma sem eiga enga saumavél

Menningarefni

Sveifla sverðum eftir leiðbeiningum úr gömlum handritum