Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ferðaþjónustan réttir úr sér

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Ferðasumarið 2021 fer vel af stað á Norðurlandi og betur en vonir stóðu til. Mikið er um bókanir og víða fullbókað á hótelum. Staðan er mun betri en í fyrra þó ekki sé hún sambærileg því sem var árið 2019.

Hlutfall íslenskra ferðamanna orðið minna

Í fyrrasumar voru fáir erlendir ferðamenn á ferli en þeim mun fleiri Íslendingar. Í sumar hefur hlutfall erlendra ferðamanna vaxiðtil muna. Erlendir ferðamenn hegða sér öðruvísi við að skipuleggja sumarfríið en íslenskir. Kalla mætti þá íslensku veðurferðamenn þar sem ferðalög þeirra eru skipulögð í takt við veðurspá og því örlítið óútreiknanaleg. 

Bókanir hafa gengið vel á hótelum á Norðurlandi og erlendir gestir eru aftur orðnir í meirihluta. Flestir eru frá löndum þar sem bólusetning er langt komin og mest munar um Bandaríkjamenn.

Asíubúar, og þá aðallega Kínverjar, voru stór hluti ferðamanna á Íslandi áður en faraldurinn braust út. Vegna ferðatakmarkana í mörgum ríkjum Asíu og slaks gengis í bólusetningum hafa bókanir ekki borist frá Asíu en væntingar standa til að það breytist þegar líður að hausti.

Bandaríkjamenn áberandi

Bókanir í hvalaskoðun hafa líka gengið vel og það á ekki bara við um Norðurland. Hlutfall íslenskra ferðamanna er lægra en í fyrrasumar þegar þeir voru stór hluti gesta hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum fyrir norðan. 

Í Reykjavík fara nánast eingöngu erlendir ferðamenn í hvalaskoðun og eru Bandaríkjamenn í miklum meirihluta, eða um 90%.

Starfmannavandi

Illa gengur að ráða starfsfólk og er í raun erfiðara en það var 2019. Fyrirtæki í ferðaþjónustu lenda oft í því að starfsfólk sem búið var að ganga frá ráðningum við, mæti hreinlega ekki til vinnu. Vinnumálastofnun hefur veitt aðgang að listum sínum yfir atvinnuleitendur en margir svara ekki símtölum eða lýsa áhugaleysi á störfunum sem standa til boða.

Stjórnvöld eru, líkt og í fyrra, með atvinnuátak til að koma skólafólki í sumarstörf. Ungu fólki standa til boða margs konar störf innan átaksins og fást því illa til starfa við greinar innan ferðaþjónustunnar.

Áberandi er hve mikil bjartsýni ríkir í ferðaþjónustunni en ótti við bakslag í faraldrinum er þó mikill.