Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eignarhlutur ríkisins 20 milljörðum verðmætari

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hlutur ríkisins í Íslandsbanka er 20 milljörðum verðmætari eftir mikla verðhækkun á markaði í gær. Hlutabréf hækkuðu lítillega í morgun en of snemmt er að segja til um hvort verðlagning í hlutafjárútboði var of lág. Íslandsbanki birti í morgun lista yfir stærstu hluthafa bankans.

Eftir mikla hækkun í gær hefur gengi hlutabréfa í Íslandsbanka náð jafnvægi og bréfin hækkuðu í morgun um 0,53 prósent. Mikil eftirspurn eftir bréfum í bankanum hefur hrundið af stað umræðu um hvort hlutabréf ríkisins hafi verið verðlögð of lágt í frumútboðinu þegar ríkið ákvað að selja 35 prósenta hlut í bankanum. Þar var verðbilið 71 til 79 krónur á hvern hlut en á endanum seldust öll bréf á 79 krónur. Hluturinn er nú kominn yfir 95 krónur.

Beðið eftir næsta uppgjöri

Verðlagning er að hluta í höndum söluráðgjafa og er það meðal annars ákvarðað út frá fundum með mögulegum fjárfestum í aðdraganda útboðs. Viðmælendur fréttastofu segja enn of snemmt að fella dóma um hvort verðið hafi verið of lágt. Endanleg verðmyndun taki nokkurn tíma og þá þurfi að sjá hver viðbrögð markaðarins verða eftir að bankinn birtir næsta ársfjórðungsuppgjör. 

Íslandsbanki birti í morgun lista yfir stærstu hluthafa bankans að loknu frumútboði. Ríkissjóður heldur enn á stærsta hlutnum, 65 prósentum, og miðað við hækkun gærdagsins er sá hlutur 20 milljörðum verðmætari en hann var í gærmorgun. Níu erlendir sjóðir eiga samtals 8,7 prósenta hlut í bankanum, þar af á bandaríski sjóðurinn Capital World 3,2 prósent. Íslenskir lífeyrissjóðir eru áberandi í hluthafahópnum og ljóst að fjárfesting þeirra er þegar búin að skila góðri ávöxtun, hvað sem síðar verður.

Fjármálaráðherra hefur þegar lýst yfir vilja til að selja stærri hlut í bankanum. Það kemur þó í hlut næstu ríkisstjórnar að ákveða það enda 180 daga sölubann eftir útboð og kosningar í september.