Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vill að Útlendingastofnun axli ábyrgð

22.06.2021 - 22:05
Magnús Norðdahl lögmaður
 Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RUV
Lögmaður hælisleitenda vill að Útlendingastofnun biðjist afsökunar á að hafa svipt fólk húsaskjóli og fæðispeningum fyrir að neita að fara í Covid-próf. Hann furðar sig á að enginn hjá stofnuninni hafi axlað ábyrgð á málinu.

 

Kærunefnd útlendingamála komst nýlega að þeirri niðurstöðu að Útlendingastofnun hefði ekki verið heimilt að svipta um tuttugu hælisleitendur húsnæði og fæðispeningum fyrir að vilja ekki fara í Covid-próf. Prófið var forsenda þess að hægt væri að senda fólkið úr landi.

Fólkið er nú aftur komið með húsnæði og aðra þjónustu. Magnús Norðdahl lögmaður nokkurra úr þessum hópi segir að málið hafi haft mikil áhrif á hans umbjóðendur.

„Einn umbjóðenda minna var vísað á götuna, átti hér ekkert félagslegt net. Hann varði heilli nótt á götum Reykjavíkurborgar í frosti áður en hann komst í hús hjá fólki sem skaut yfir hann skjólshúsi. Þannig að þetta er alvarlegt mál. Stofnunin gekk fram með ólögmætum og ómannúðlegum hætti,“ segir Magnús.

Þegar hefur verið ákveðið að höfða skaða- og miskabótamál gegn Útlendingastofnun.

„Þeir voru sviptir þjónustu í andstöðu við lög þannig að ég tel að þeir eigi rétt á skaðabótum. Þær eiga að taka mið af því tjóni sem þeir urðu fyrir. Það er að segja hver er verðmiðinn á þeirri þjónustu sem þeir ekki nutu á þeim tíma sem um ræðir.  Svo er þetta líka spurning um miska,“ segir Magnús.

Magnús furðar sig á að enginn hjá Útlendingastofnun hafi axlað ábyrgð á málinu.

„Við höfum líka kallað eftir því að einhver stigi fram og axli ábyrgð á þessu máli. Fyrsta væri kannski að biðjast afsökunar á þessu,“ segir Magnús.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV