Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

UNESCO hyggst breyta minjaskráningu kóralrifsins mikla

Auðugt lífríki þrífst á kóralrifjum.
 Mynd: EPA - AAP/JAMES COOK UNIVERSITY
Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) hyggst breyta heimsminjaskráningu Kóralrifsins mikla undan austurströnd Ástralíu. Umhverfisráðherra Ástralíu segist ætla að berjast af krafti gegn ákvörðuninni.

Ákvörðunin kemur fram í nýrri skýrslu UNESCO þar sem lagt er til að rifið verði skráð á válista sem náttúruminjar í hættu. Það þýðir raunverulega að mikilvægi rifsins fer neðar á heimsminjaskránni.

Undanfarin ár og áratugi hafa orðið verulegar skemmdir á rifinu, allt að níutíu prósent þess er skemmt og kórallinn er allur dauður á stórum svæðum.

Náttúruverndarsamtök fullyrða að þessi ákvörðun UNESCO endurspegli getuleysi Ástrala við að draga úr losun kolefnis. Vísindamenn segja helstu ástæðu hnignunar rifsins vera af völdum hlýnunar. 

Kóralrifið mikla var sett á heimsminjaskrá árið 1981 og sagt vera „mikilfenglegasta sjávarsvæði í heiminum“. Það er ríkjum fjárhagslega mikilvægt að halda minjum á skrá UNESCO enda laða staðir á skránni þúsundir ferðamanna að á hverju ári.

Stofnunin hvetur Ástrali til að herða á aðgerðum sínum gegn hnattrænni hlýnun en hún hefur haft áhyggjur af framgangi þeirra á svæðinu allt frá árinu 2011.

Sussan Ley, umhverfisráðherra Ástralíu, kveðst forviða yfir ákvörðun UNESCO og að áströlsk stjórnvöld muni rísa gegn henni á ráðstefnu stofnunarinnar í næsta mánuði.

Hún sagði að UNESCO hefði algerlega horft fram hjá því að Ástralir hafa varið milljörðum dala í tilraunum til að bjarga kóralrifinu. Viðleitni Ástrala var þó lofuð í skýrslunni en sagt að þeim hafi ekki tekist ætlunarverk sitt.