Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Telja hraunflæðilíkön hafa sannað gildi sitt

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands/Háskóli ? - Veðurstofa Íslands
Vísindamenn hjá Veðurstofunni og Háskóla Íslands telja að hraunflæðilíkön hafi sannað gildi sitt í eldgosinu við Fagradalsfjall. Í nýrri grein á vef Veðurstofunnar er fjallað um að hraunflæðilíkön hafi fyrst verið notuð á Íslandi í gosinu í Holuhrauni fyrir um það bil sex árum en fyrst núna hafi veruleg þróun orðið í notkun þeirra.

„Líkönin hafa nýst viðbragðsaðilum við að meta hvaða innviðir eru mögulega í hættu vegna hraunflæðis sem og að stýra umferð og bæta öryggi fólks við eldstöðvarnar. Þannig að við teljum að þessi líkön hafi komið að góðum,”er haft eftir Söru Barsotti, fagstjóra eldfjallavár á Veðurstofu Íslands. Mikilvægt sé að spá fyrir um mögulegar hættur og tjón á innviðum. Enn sé óljóst hversu lengi gosið muni standa en athyglin beinist nú að Nátthaga og áhrif hraunflæðis þaðan á Suðurstrandarveg. 

Veðurstofan og Háskóli Íslands hafa verið í samstarfi um notkun og þróun hraunflæðilíkana í verkefni sem styrkt er af Rannsóknarsjóði á vegum RANNÍS. Dr. Gro Birkefeldt Möller Pedersen, rannsóknasérfræðingur hjá Háskóla Íslands, segir að jafnvel þótt hraunflæði mælist stöðugt frá eldstöðinni þurfi að taka tillit til óreglulegs flæðis og hraðra breytinga á farvegum hraunsins. Óvissa um það hvenær Nátthagi fyllist hafi áhrif á spá um það hvenær hraun renni yfir Suðurstrandarveg. „Við höfum sett upp tvær sviðsmyndir, „minni“ og „stærri“, fyrir mögulegt hraunflæði úr Nátthaga, þar sem gert er ráð fyrir mismiklu magni af hrauni,“ segir Gro. „Stærri sviðsmyndin sýnir mögulega stöðu á hraunbreiðunni í sumar eða byrjun hausts, að öllu óbreyttu en síðan er alltaf þessi óvissa um hvenær hraun byrjar að flæða suður úr Nátthaga.“