Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Svíinn í Sviss virðist hafa hitt naglann á höfuðið

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Meira en helmingur landsmanna, 16 ára og eldri, telst nú fullbólusettur. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á covid.is. Áttatíu og fjögur prósent kvenna hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu en 78 prósent karla. Rúmlega 240 þúsund hafa fengið að minnsta kosti einn skammt eða 81 prósent þeirra sem til stendur að bólusetja. Umboðsmaður bóluefna fyrir Ísland virðist hafa hitt naglann á höfuðið í janúar þegar hann sagði raunhæft að Ísland yrði búið að ljúka bólusetningum um mitt sumar.

Þegar bólusetningar hófust í lok síðasta árs var ekki margt sem benti til þess að það tækist að ljúka þeim í sumar. 

Glannaleg ummæli Svíans í Sviss

Sú ákvörðun stjórnvalda að fylgja Evrópusambandinu að málum var gagnrýnd og einhverjir töldu að réttara hefði verið að semja beint við lyfjaframleiðendur.  

Þá vakti athygli þegar Richard Bergström, hálfgerður umboðsmaður bóluefna fyrir Ísland, sagðist í viðtali við RÚV í janúar að það væri raunhæft markmið að Ísland væri búið að ljúka bólusetningum um mitt sumar.

Bergström, sem er búsettur í Sviss, á sæti í samninganefnd framkvæmdastjórnar ESB um bóluefni og hefur verið yfirumsjónarmaður bóluefnamála í Svíþjóð.

Meðal þeirra sem gerði athugasemdir við þessi ummæli Bergström var Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Í viðtali við visir.is sagðist Kári telja liggja beinast við að spyrja hvað Svíinn væri að reykja. Ummæli hans væru glannaleg. 

Í viðtali við mbl.is sagðist Kári þó vona að Bergström hefði rétt fyrir sér. „En ég er ofboðslega hrædd­ur um að hann hafi ekki jafn mikið til síns máls eins og ég vildi að hann hefði,“ sagði Kári.

Átta af hverjum tíu fengið einn skammt 

Miðað við uppfærðar tölur á covid.is í dag virðist Bergström hafa verið býsna sannspár. Meira en helmingur landsmanna, 16 ára og eldri, telst fullbólusettur og 81 prósent þeirra sem til stendur að bólusetja hefur fengið minnst einn skammt. 

Langflestir hafa fengið bóluefni Pfizer eða rúmlega 120 þúsund. Tæplega fjörutíu þúsund bíða þess að vera fullbólusettir. 

Um 20 þúsund hafa verið bólusettir með bóluefninu frá Moderna og á eftir að klára bólusetningu hjá tæplega 6.500. Fjörutíu þúsund hafa verið bólusettir með Janssen en aðeins þarf einn skammt af því bóluefni.

Kvartað undan AstraZeneca

Stóri hausverkurinn er sem fyrr AstraZeneca. Sextíu þúsund hafa fengið bóluefnið og nærri fjörutíu þúsund eiga eftir að fá seinni skammtinn.

Vonir stóðu til að hægt yrði að bólusetja með bóluefninu á höfuðborgarsvæðinu í vikunni en það tafðist þar sem bóluefnið barst ekki í tæka tíð. 

Fjölmiðlamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson gagnrýndi á Facebook í gær að hann væri enn að bíða eftir seinni skammtinum. Hann fullyrti að þeir sem hefðu ekki mætt í bólusetningu með bóluefninu á sínum tíma hefðu ekki farið aftast í röðina heldur fengið annað bóluefni og væru nú jafnvel fullbólusettir. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segist í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu ekki ætla að bregðast sérstaklega við skrifum Björns Inga. „Þetta er hins vegar ekki rétt hjá honum. Frestunin núna er tæp vika og ég sé ekki vandamálið við það. Erlendar rannsóknir sýna að AZ-bóluefnið er alveg jafn virkt og Pfizer,“ segir Þórólfur.

Hægist um í bólusetningum á næstunni

Alls verða 33 þúsund bólusettir í þessari viku. Átján þúsund fá bóluefni Pfizer, fimm þúsund fá seinni skammtinn af bóluefni AstraZeneca á landsbyggðinni og tíu þúsund manns verður boðið að fá bóluefni Janssen.  Heilbrigðisráðherra hefur sagt að allir eigi að hafa fengið boð í bólusetningu á föstudag.

Í næstu viku fer að hægjast aðeins um á höfuðborgarsvæðinu. Frá 28. júní til 13. júlí verða eingöngu seinni bólusetningar. Frá 28. júní til 1. júlí verða fjórir bólusetningardagar en vikuna eftir það verða þeir aðeins tveir. 

Þriðjudaginn 13. júlí er síðan ráðgert að hafa síðasta bólusetningadaginn fyrir sumarfrí og ekki liggur fyrir hvernig bólusetningum verður háttað eftir það.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV