Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Símtal seint að kvöldi og hlutirnir afgreiddir þá“

Mynd: RÚV / RÚV

„Símtal seint að kvöldi og hlutirnir afgreiddir þá“

22.06.2021 - 14:12
Ólafur Jóhannesson tók í gær við liði FH í úrvalsdeild karla í fótbolta. Liðið hafði þá aðeins náð í eitt stig í síðustu fimm leikjum en stíf dagskrá framundan, bæði hér heima og í Evrópukeppni.

Ólafur er öllum hnútum kunnugur í Kaplakrika þar sem hann þjálfaði liðið um árabil með góðum árangri. 

„Hér leið mér vel og ég veit að mér kemur til með að líða vel hérna, þannig að það var aldrei vafi í mínum huga,“ segir Ólafur. 

FH steinlá fyrir Breiðabliki 4-0 í deildinni í fyrrakvöld. Logi Ólafsson stýrði liðinu eftir að hafa tekið við því ásamt Eiði Smára Guðjohnsen um mitt tímabil í fyrra. Hann var látinn fara í gærmorgun. 

„Það var símtal seint að kvöldi eða nánast nóttu og hlutirnir voru afgreiddir þá. Ég var í góðu fríi og ætlaði mér að vera í fríi þannig að kallið kom aðeins of snemma finnst mér, segir Ólafur sem hætti störfum hjá Stjörnunni seint á síðasta ári.  

„Það er ljóst að þetta er ekki besti tíminn til að taka við liði. En stundum fer þetta svona og það er sárt að sjá eftir Loga héðan. En þetta er nú bara eins og fótboltinn er. Það er mitt hlutverk að reyna að koma þessu aftur á góða braut og ég mun gera allt til þess að reyna það. Auðvitað sé ég mögulega í þessu liði, tvímælalaust. Og vil meina að menn eigi að geta gert betur en þeir hafa gert hingað til.“ 

Samningurinn Ólafs gildir út tímabilið og svo verður bara að koma í ljós hvað gerist þá.