Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sígildur og góður Bubbi

Mynd með færslu
 Mynd: Alda - Morthens

Sígildur og góður Bubbi

22.06.2021 - 11:23

Höfundar

Bubba bregst ekki bogalistin á Sjálfsmynd, 34. hljóðversplötu sinni, segir Arnar Eggert Thoroddsen gagnrýnandi. Platan er vonbjört og glaðvær en hann veigrar sér ekki við því að tækla erfiðu málin.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Bubbi vísar smekklega  í meistara Dylan á þessari nýjustu plötu sinni, bæði í titli og umslagi. Sá mikli listamaður hafði, og hefur, eðlilega mikil áhrif á Bubba sem hefur fjörgað íslenska þjóð í áratugi með tónlist, textum og eigum við að segja, almennri viðveru. Ferill þessa manns er auðvitað lyginni líkastur og undanfarin ár höfum við fengið að njóta „seinni vindsins“ svokallaða, á síðustu plötum hefur verið óvenju mikill broddur, sköpun og fjör.

Á Sjálfsmynd vinnur Bubbi með sama flokki og vann með honum á síðustu plötu, Regnbogans stræti. Guðmundur Óskar Guðmundsson er upptökustjóri og bassaleikari, Hjörtur Ingvi Jóhannsson leikur á hljómborð, Örn Eldjárn spilar á gítar, Aron Steinn Ásbjarnarson blæs í saxófón og Þorvaldur Þór Þorvaldsson lemur hvers kyns húðir, diska, kólfa og kubba. Gestir eru Bríet, GDRN, Auður og Aurora Kammerkór undir kórstjórn Sigríðar Soffíu Hafliðadóttur.

Mynd með færslu
 Mynd: Bubbi Morthens - Alda Music

Sjálfsmynd er ólík fyrri plötum á ýmsan hátt. Túngumál (2017) var konseptverk, rammað inn utan um suðurameríska gítara en Regnbogans stræti var utan eiginlegs þema, samsafn af lögum sem fjölluðu um margvísleg efni. Báðar gríðarsterkar, hvor á sinn hátt. Sjálfsmynd kemur dálítið fyrir eins og straumlínulöguð útgáfa af Regnbogans stræti, sem var nokk mikilúðleg. Vínyllinn þar tvöfaldur á meðan þessi er einföld. Sjálfsmynd er hreinni og beinni einhvern veginn án þess að ég viti nákvæmlega hvernig best er að lýsa því.

Platan byrjar með tveimur reffilegum slögurum, „Ertu góður?“ og „Guð er ekki til“. Einfaldar smíðar og grípandi sem ég var lengi vel ekki svo viss um en ... hvað gerist svo? Einn af hæfileikum Bubba er að semja lúmska eyrnaorma sem finna sér leið fyrir rest, gera þig varnarlausan einhvern veginn. Nú syngur maður og hummar með alveg helsáttur. Bandið hans Bubba um þessar mundir er skothelt. Þvílíkir spilarar og hljómur og frágangur til fyrirmyndar. Það er nettur níundaáratugsbragur yfir líka eins og á síðustu plötu, sérstaklega í hljómborði. „Á horni hamingjunnar“ er ballaða, byrjar nánast eins og sálmur og rólegri lögin á plötunni eru í raun þau bestu. „Hungur“ er sálarlegið, Van Morrison svífur yfir vötnum á köflum en mest er það þó bubbískt. „Hvítir hestar“ er sígildur Bubbi, í kunnuglegu, og má ég segja hjartavermandi, fomi. Ég hef heyrt þetta lag áður hjá Bubba og megi hann halda áfram að semja það sem allra lengst. Djúpur texti og draumkenndur og hendingarnar flottar og vandaðar: „Það dundi í dalnum er hestar hlupu skeið / Hófar muldu grjót inn að kviku“.

„Stofa 112“ opnar hlið tvö og mikið sem ég kann að meta orgelspilið. Höfgi bundin stemma og næsta lag, „Hver dagur“, er einkar vel heppnað. Virkilega næmt og fallegt ástarlag og gæti orðið klassík í fyllingu tímans. Hér gengur allt upp. „Þessir menn“ er rokkari í anda fyrstu laganna en svo er komið að því lagi sem miðjar plötuna, „Ástrós“. Bubbi og Bríet syngja þetta saman og lagið er gjörsamlega nakið og miskunnarlaust þar sem heimilisofbeldi er yrkisefnið. Svona gerir enginn eins og Bubbi. Textinn er svo sterkur og undanbragðalaus að maður er á bríkinni, með hnút í maga nánast, frá fyrstu sekúndu til hinnar síðustu. Uppbyggingin, spennan og innkoma Bríetar, allt er þetta stórkoslegt. Svona til róa hlustandann aðeins eftir þessi átök, leiða okkur úr vel heppnuðu verki, er endað á tveimur „stuðlögum“ ef svo mætti kalla. Endirinn kallast á við upphafið mætti segja. „Ennþá er tími“ kemur fyrst en svo lokar „Sól rís“ þessum kafla í útgáfuvegferð Bubba; glaðvært og vonbjart lag. Því þar dvelur þessi ótrúlegi tónlistarmaður alla jafna þó hann tækli erfiðu málin líka af eftirtektarverðu hugrekki. Takk fyrir mig Bubbi, enn og aftur. Sjáumst, og heyrumst, að ári.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Bubbi Morthens – Sjálfsmynd

Popptónlist

Nógur tími og lífsgleði hjá Moses Hightower og Bubba

Tónlist

Ástrós - Bubbi, Bríet og GDRN

Tónlist

Nánast sparkað úr partíi fyrir að kunna ekki Blindsker