Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Saksóknari fékk gögn um Samherja frá Seðlabankanum

22.06.2021 - 14:21
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Embætti héraðssaksóknara fékk afhenta þrjá diska frá Seðlabanka Íslands með 6.000 GB af gögnum sem lagt var hald á við húsleit bankans í höfuðstöðvum Samherja fyrir níu árum. Gögnin voru borin undir Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjaskjölunum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í úrskurði Persónuverndar vegna kvörtunar Þorsteins Más yfir vinnslu persónuupplýsinga hjá Seðlabanka Íslands. 

Í úrskurðinum er rakið að Þorsteinn hafi verið boðaður í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra í tengslum við rannsókn á Samherjaskjölunum. Í skýrslutökunni voru borin undir hann gögn sem síðar kom í ljós að aflað hafði verið frá héraðssaksóknara sem hafði fengið þau frá Seðlabanka Íslands. 

Þorsteinn taldi að Seðlabankanum hefði borið að eyða persónuupplýsingum um sig eftir að máli Seðlabankans á hendur honum og Samherja lauk.

Eftir að Hæstiréttur felldi úr gildi 15 milljóna króna sekt fyrir meint brot á gjaldeyrislögum var bankanum gert að greiða Þorsteini Má 2,5 milljónir króna í bætur.

Meðal gagnanna sem héraðssaksóknari fékk frá Seðlabankanum og miðlaði áfram til skattrannsóknarstjóra voru tölvupóstar Þorsteins, upplýsingar um fjármál og fleira. Þorsteinn taldi að þessi miðlun Seðlabankans á persónuupplýsingum um hann til héraðssaksóknara hefði ekki byggst á fullnægjandi lagaheimild og að hvorki hefðu verið til staðar brýnir hagsmunir né ríkir almannahagsmunir.

Í úrskurðinum kemur jafnframt fram að Þorsteinn Már fór þess á leit að Persónuvernd færi í ýmsa upplýsinga- og gagnaöflun, meðal annars að kannað yrði nákvæmlega hvaða gögn þetta væru. Hann sagði það enga afsökun að þau væru umfangsmikil því það væri á ábyrgð Seðlabankans að leggja hald á þau og varðveita. 

Seðlabankinn vísaði kvörtun Þorsteins Más á bug og sagði gögnin hafa verið vistuð í læstri geymslu og aðeins örfáir starfsmenn bankans skoðað þau.

Embætti héraðssaksóknara hefði lagt fram beiðni um að fá gögnin á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.  Afhending gagnanna hefði verið í senn lögmæt, skýr og gerð í málefnalegum tilgangi enda hafi það verið mat héraðssaksóknara „að gögnin gætu haft sönnunargildi við yfirstandandi rannsókn.“

Persónuvernd segir í úrskurði sínum að játa verði eftirlitsstjórnvöldum nokkuð rúmt svigrúm við mat á því hvaða gögn þau telji nauðsynleg við störf sín í þágu eftirlits. Persónuvernd horfði þar meðal annars til húsleitar Samkeppnisstofnunar vegna gruns um brot olíufélaga á samkeppnislögum.  Persónuvernd taldi því að miðlun persónuupplýsinga um Þorstein Má til embættis héraðssaksóknara hafi samrýmst lögum.

Kvörtun Þorsteins Más um að Seðlabankanum yrði gert að eyða þessum gögnum var vísað frá sem og öflun bankans á persónuupplýsingum um hann.  Þá var það talið að Seðlabankinn hefði farið að lögum þegar hann varðveitti gögnin.

Samherji birti í dag ítarlega yfirlýsingu þar sem beðist var afsökunar á mistökum sem gerð voru í Namibíu en tekið skýrt fram að engin refsiverð brot hefðu verið framin af hálfu fyrirtækja eða starfsmanna „ef undan er skilin sú háttsemi sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hefur beinlínis játað og viðurkennt. “

Þorsteinn Már segist engu að síður, sem æðsti stjórnandi, bera ábyrgð á því að hafa látið þau vinnubrögð sem þar voru viðhöfð, viðgangast. „Hefur það valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, vinum, fjölskyldum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víðar í samfélaginu. Mér þykir mjög leitt að svo hafi farið.“ 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV