Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óttast aukin völd talibana í Afganistan

22.06.2021 - 23:35
epa09287773 An Afghan security official checks people at a checkpoint in Helmand, Afghanistan, 20 June 2021. Despite the Covid-19 pandemic, the number of people forcibly displaced in the world due to persecution, conflict, violence, human rights violations and events continued to grow in 2020, reaching a new record of 82.4 million, according to data published on 18 June by the United Nations. Around 2.8 million people are reported displaced in Afghanistan.  EPA-EFE/WATAN YAR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Afganistan lýsti í dag yfir áhyggjum af auknum völdum talibana í landinu. Bandarísk stjórnvöld stefna enn á að draga herlið sitt þaðan í haust.

Frá því í síðasta mánuði hafa talibanar náð yfirráðum í 50 af 370 héruðum Afganistans en talið er að þeir hafi blásið til sóknar á sama tíma og brotthvarf herliðs Bandaríkjanna og NATO frá landinu er yfirvofandi. Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Afghanistan segir aukin átök og ítök talibana áhyggjuefni. Þau skapi óöryggi fyrir íbúar þar og í nærliggjandi löndum. 

Bandarískir hermenn voru um hundrað þúsund í Afganistan þegar mest lét en allir eiga að vera farnir þaðan í september, samkvæmt samkomulagi talibana og Bandaríkjanna. Talibanar hafa neitað að ræða við afgönsk stjórnvöld fyrr en erlent herlið er farið úr landinu.

John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, segir að aðgerðir Bandaríkjahers taki mið af árásum talibana á næstu mánuðum en að enn sé stefnt að því að draga allt herlið þaðan í haust. 

Samkvæmt fjölmiðlum í Afganistan hafa talibanar safnað ógrynni af vopnum og myrt, sært og tekið hermenn í gíslingu. Þeir hóta því að framundan sé stórsókn þeirra á landinu öllu. Ashraf Gani, forseti Afganistan, segir að afganskt herlið sé fullfært um að koma í veg fyrir yfirráð talibana en sérfræðingar óttast að talibönum vaxi ásmegin með brotthvarfi erlendra herliða.