Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Konur gætu náð meirihluta á Alþingi í fyrsta sinn

22.06.2021 - 22:05
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Næstu alþingiskosningar gætu orðið sögulegar hvað varðar hlutfall kynja á Alþingi. Í fyrsta sinn gæti það gerst að konur yrðu í meirihluta.

 

Stjórnmálaflokkar hafa á undanförum vikum og mánuðum verið að kynna framboðslista fyrir komandi alþingiskosningar. Konur hafa náð góðum árangri í prófkjörum og skipa víða fyrsta sæti á lista.

Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn, Samfylkingin, Píratar og Viðreisn hafa allir kynnt sína lista að heild eða hluta.

Alls eru 59 konur í fyrsta til þriðja sæti á listum þessara flokka en voru 55 í síðustu kosningum og fjölgar því um fjórar. Karlarnir eru 49.

Fimmtán konur voru í fyrsta til þriðja sæti á listum Miðflokks og Flokks fólksins í síðustu kosningum en þessir flokkar líkt og Sósíalistaflokkurinn eiga enn eftir að kynna sína lista.

Í þingkosningum 2016 voru 30 konur kjörnar á þing og hafa aldrei verið fleiri. Þeim fækkaði hins vegar um sex í kosningunum 2017.

Sé miðað við niðurstöðu síðustu kosninga og þá framboðslista sem nú liggja fyrir myndu 32 konur ná kjöri á þing og væru konur þá í fyrsta sinn í meirihluta. Þarna er miðað að ein þingkona frá Flokki fólksins og ein þingkona frá Miðflokknum næðu kjöri líkt og gerðist í síðustu kosningum.

Alþingiskosningar fara fram 25. september og kannanir benda til þess að átta til níu flokkar nái mönnum inn á þing.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV