Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Komu til Íslands til að gifta sig en lentu í einangrun

22.06.2021 - 22:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Fullbólusett bandarískt par kom til Íslands til að gifta sig en lenti í einangrun í farsóttarhúsinu Lind í gær eftir að þau greindust bæði með COVID-19 á landamærunum. Þetta segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa. „Já, þeim fannst þetta ansi ömurlegt,“ segir hann.

Gylfi telur að í kringum fimmtán fullbólusettir ferðamenn, með öll tilskilin vottorð, hafi greinst smitaðir á landamærunum og lent í einangrun í farsóttarhúsinu frá því í apríl. Því hljóti skimun bólusettra að skipta máli. 

Þrátt fyrir að ekki sé lengur skylda fyrir fólk frá áhættusvæðum að dvelja í sóttvarnahúsi við komuna til landsins dvelur þar fjöldi fólks. Nú eru 279 ferðamenn á Fosshótel Reykjavík og Gylfi segir að fólki sem þangað kemur sé ekki gefinn kostur á öðru en að dvelja í þá fimm daga sem það á að vera í sóttkví.

Starfsfólk hússins hafi ekki forsendur til að vita fyrirfram hversu margir úr hverri flugvél kjósi að dvelja á hótelinu. Venjulega séu þar í kringum 200-250 manns í byrjun vikunnar en yfir 300 þegar líður að helgi. „Það er ekki lengur rúta á vegum hins opinbera, þannig að fólk bara birtist hér,“ segir hann, og að flestir komi sennilega með flugrútunni. „Þar eru bara ferðamenn svo þar ættu allir að vera í sóttkví.“

Auk þeirra 279 ferðamanna sem dvelja á Fosshótel Reykjavík dvelja 20 manns í farsóttarhúsinu Lind, og 15 þeirra í einangrun.