Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hurðir teknar niður í Mývatnssveit

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisráðuneytið - RÚV
Í gamla skólanum á Skútustöðum, sem nú síðast hýsti Hótel Gíg, verður opnuð gestastofa náttúruverndarsvæða í Mývatnssveit. Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er kveðið á um lögbundin áform ríkisins um að halda úti sex meginstarfsstöðvum þjóðgarðsins sem mynda þjónustunet. Mývatn er sú sjötta í röðinni.

Ný tegund skóflustungu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, setti í dag formlega af stað uppbyggingu gestastofu á Skútustöðum í Mývatnssveit. Í stað hinnar hefðbundnu skóflustungu tók ráðherrann, auk sveitastjóra Skútustaðahrepps og forstjóra stofnananna fjögurra sem koma að verkefninu, sér verkfæri í hönd og tóku niður hurðir. Í anda hringrásarhagkerfisins hefur hurðunum verið fundinn annar staður í sveitinni. 

Áætlað er að nýta sem mest af innréttingum og innanstokksmunum í húsinu ellegar finna þeim nýjan stað. 

Samvinnuverkefni

Anna Þorsteinsdóttir, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, segir að í húsnæðinu, sem er um 1200 fermetrar, eigi að setja undir eitt þak gestastofu þjóðgarðsins í samvinnu við Umhverfisstofnun, Landgræðsluna og Náttúrurannsóknarmiðstöðina við Mývatn (Ramý).

„Sú við Mývatn er fyrst og fremst hugsuð fyrir Vatnajökulsþjóðgarð norður hálendið, sem sagt Öskju og Herðubreiðarlindir, og það svæði. Eins fyrir verndarsvæði Mývatns og Laxár en þetta verður líka í samvinnu við byggðina á svæðinu og Landgræðsluna og Rannsóknarmiðstöðina,“ segir Anna.

Tækifæri fyrir Skútustaðahrepp

Áform eru um að nýta hluta af húsnæðinu undir atvinnuskapandi nýsköpun og þekkingarsetur. Einnig á að gefast möguleiki á að útbúa í húsinu starfsaðstöðu fyrir opinber störf án staðsetningar, til dæmis á vegum annarra stofnana ríkisins, háskóla og rannsóknaraðila