Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hörgull á bóluefnum í fátækari ríkjum heims

A doctor receives a Johnson & Johnson vaccine at the government hospital in Klerksdorp, South Africa, Thursday, Feb. 18, 2021. South Africa started the rollout of vaccines Wednesday with South African President Cyril Ramaphosa among the first in his country to receive the vaccine in the inoculation drive in the country. (AP Photo/Shiraaz Mohamed)
 Mynd: AP
Bóluefnaáætlanir fjölda fátækari ríkja heims eru í uppnámi þar sem þau skortir bóluefni, um það bil 131 ríki heims hefur fengið 90 milljónir skammta fyrir tilstilli Covax áætlunarinnar en það dugar hvergi til.

Breska ríkisútvarpið hefur þetta eftir dr. Bruce Aylward aðalráðgjafa Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem segir að mun meira þurfi til svo vernda megi íbúa þeirra landa þar sem útbreiðsla COVID-19 er enn í örum vexti.

Þriðja bylgja faraldursins er skollin á í nokkrum ríkjum Afríku, þar á meðal í Suður-Afríku. Hingað til hafa ríki álfunnar fengið um 40 milljón skammta af bóluefnum gegn COVID-19 sem aðeins nægir til að bólusetja 2% íbúanna.

Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, hefur þungar áhyggjur af að ekki takist að stemma stigu við útbreiðslunni og krafðist þess í gær að auðugri ríki heims hættu að sanka að sér bóluefni.

Samtímis og það væri að gerast ættu stjórnvöld í heimalandi hans í harðri og óvæginni baráttu við veiruna. Hann sagði jafnframt að stjórnvöld væru nú í samstarfi við Covax að koma á bóluefnaframleiðslu í Suður-Afríku.

Covax áætluninni var hrundið af stað á síðasta ári svo tryggja mætti fátækari ríkjum heims aðgang að bóluefni með fjárstuðningi þeirra auðugri.