Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Grímuskylda utandyra afnumin á Ítalíu

epa09283902 Italian Health Minister Roberto Speranza during a press conference at Chigi Palace, Rome, Italy, 18 June 2021. 'Despite all the confusion, it is extraordinary how the Italian population does not show the intention to decrease vaccination and not to vaccinate, it is extraordinary. Compared to other countries, it is one of the most admirable behaviors, let’s remember it", Draghi said.  EPA-EFE/GIUSEPPE LAMI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Ítölsk stjórnvöld boða að ekki verði lengur skylt að bera andlitsgrímu utandyra frá og með næstkomandi mánudegi 28. júní. Mjög hefur dregið úr smitum í landinu og um þriðjungur fólks yfir tólf ára aldri er bólusett.

Þetta kom fram í tilkynningu heilbrigðisráðuneytis landsins í gær en tilskipunin á við um þau svæði sem eru hvítmerkt samkvæmt litakóðunarkerfi Ítala.

Það á í raun við um allt landið utan Aosta dalsins í norðvesturhluta þess. Roberto Speranza heilbrigðisráðherra byggir þessa ákvörðun sína á tillögum sérstaks vísindaráðs.

Ráðið hvetur jafnframt til að almenningur hafi alltaf grímu innan seilingar sem það geti gripið til í fjölmenni og annars staðar þar sem aukin hætta er á að smit berist milli fólks.

Sérfræðingar álíta að fyrir mánaðarlok verði Ítalía öll hvítt svæði enda hefur dregið mjög úr smitum en 21 andlát af völdum COVID-19 var tilkynnt í dag og 495 ný smit.

Frá því að faraldurinn skall á snemma árs 2020 hafa ríflega 127 þúsund Ítalir látist af völdum hans og yfir fjórar milljónir sýkst.

Um það bil 16 milljónir Ítala yfir tólf ára aldri eru þegar bólusettir eða um 30% þeirra 60 milljóna sem í landinu búa.