Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fornleifafræðingar í kapphlaupi við hraunið

Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Fornleifafræðingar á vegum Minjastofnunar keppast nú við að kortleggja minjar við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Greint var frá því í fréttum helgina að afkomendur bænda á jörðinni Ísólfsskála austan Grindavíkur óttist að missa jörðina undir hraun. Oddgeir Isaksen, fornleifafræðingur hjá Minjastofnun, segir að þegar sé búið að kortleggja hátt í 240 minjar sem eru ekki enn komnar undir hraun.

Hófust strax handa 

„Við fórum strax að skoða svæðið sem varð fyrir áhrifum af jarðskjálftahrinunni. Það var ekki vitað hvar kvikan myndi koma upp svo við fórum í að skrá minjar á svæðinu og safna gögnum um minjarnar. Það voru einhverjar skráningar fyrir en gögnin voru ekki mjög aðgengileg þannig við byrjuðum á þessu, “ segir Oddgeir.

Hann segir þónokkuð vera um verminjar í landi Ísólfsskála sem hafa verið kortlagðar. Talið er að þar hafi jafnvel verið minjar frá landnámsöld en þær elstu séu þó líklega farnar í sjó þar sem mikið hefur verið um landbrot á svæðinu. Oddgeir telur að skálinn geti mögulega sloppið við að verða undir hrauninu en hann hafi meiri áhyggjur af Grindavík. Þar er til að mynda, Þórkötlustaðahverfi sem er verndað svæði í byggð og jafnframt elsta byggðin. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Allur Reykjanesskagi næstur

Oddgeir segir skráninguna vera einfaldasta verndunarformið en verkið sé þó kapphlaup við bæði tímann og hraunið. Nú sé teymi Minjastofnunar að einbeita sér að Grindavíkur og nágrenni en næst sé allur Reykjanesskagi undir.